14 og 15 ára snillingar með sama framleiðanda og Miley Cyrus

Baldur og Jón Arnór gáfu út nýtt lag á dögunum …
Baldur og Jón Arnór gáfu út nýtt lag á dögunum en þrátt fyrir ungan aldur hafa þeir mikla reynslu af bæði sviðlistum og tónlistarsköpun og stefna hátt. K100.is/Löve

Vinunum Jóni Arnóri Péturssyni, 15 ára, og Baldri Birni Arnarssyni, 14 ára, er sannarlega margt til lista lagt þrátt fyrir ungan aldur. Þeir eru saman í hljómsveitinni Jón Arnór og Baldur en ofan á það eru þeir báðir leikarar og æfa auk þess fótbolta.

Þeir gáfu út sitt þriðja lag fyrir tæpri viku og er það fyrsta lagið sem er gert í samvinnu við framleiðanda í Los Angeles í Bandaríkjunum en sá hefur meðal annars unnið með stjörnum á við Katy Perry, Miley Cyrus og Selenu Gomez. Lagið heitir Partý í kvöld (Arí Arí Ó). Drengirnir hafa spilað saman á ýmsum hátíðum og áttu að spila á Þjóðhátíð á árinu en eins og alþjóð veit var henni aflýst, eins og flestu öðru, vegna Covid. Þeir vonast því til að geta spilað á Þjóðhátíð 2022 og segjast stefna jafnvel út fyrir landsteinana.

Kynntust í Sönglist

Drengirnir eru miklir vinir en þeir kynntust fyrir fimm árum í Sönglist, söng- og leiklistarskóla í Borgarleikhúsinu, og náðu strax vel saman.

„Ég spurði hann [Jón Arnór] eftir svona ár, af því að við vorum saman og vorum góðir vinir: Eigum við að stofna hljómsveit? Og hann bara: Já!“ segir Baldur í samtali við Morgunblaðið og K100.is en hann segir þá hafa verið saman í hljómsveit síðan þá.

„En við byrjuðum á þessu svona fyrir alvöru í sumar,“ bætir hann við.

Aðspurðir segjast drengirnir hafa fundið framleiðandann sinn með því að senda póst á ýmsa aðila á netinu.

„Við bjuggumst svo sem ekkert endilega við svari, við vorum bara að þessu svona til gamans. En svo fengum við svar,“ segir Jón Arnór. Drengirnir sendu meðal annars spotifyaðganginn sinn á framleiðandann, sem var að sögn Jóns Arnórs „bara til í þetta“.

Nýjasta frumsamda lag vinanna er eins og kom fram lagið „Partý í kvöld“ en Baldur segir að laglínan hafi bara komið til sín.

Fékk lagið til sín

„Fyrir nokkrum mánuðum var ég uppi í sófa og fór að fá rosalega „catchy“ línu til mín og ég sendi línuna á Jón Arnór. Ég var allan tímann sannfærður um að þetta væri stolið. Þetta væri eitthvað annað sem væri til,“ útskýrði Baldur, sem segir að þeir félagar hafi þó fljótt komist að því að laglínan væri alveg „orgínal“.

„Við héldum áfram að þróa þetta og það endaði mjög vel,“ bætir Jón Arnór við.

Tónlistarsköpun er þó ekki það eina sem drengirnir hafa fyrir stafni. Báðir eru þeir með stór hlutverk í leiksýningum um þessar mundir en Baldur fer með hlutverk „litla Bubba“ í leiksýningunni Níu líf í Borgarleikhúsinu um líf Bubba Morthens og Jón Arnór fer með hlutverk Tommís í Kardimommubænum í Þjóðleikhúsinu.

Hægt er að hlusta á tónlist Jóns Arnórs og Baldurs á Spotify, Instagram og Facebook en nýja lagið má heyra hér. 

 

Jón Arnór og Baldur mættu einnig í Ísland vaknar á dögunum en viðtalið má sjá hér að neðan. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.990 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »

#taktubetrimyndir