„Þetta er okkur tamt að nota um hluti sem eru mjög jákvæðir“

Björn Thors segir það taka smá tíma að ná áhorfendum …
Björn Thors segir það taka smá tíma að ná áhorfendum til baka eftir uppákomur þar sem þarf að stöðva sýninguna. Árni Sæberg

„Þetta grín sem er gert í sýningunni, að þetta sé „geðveikt“ kvöld og allir séu „klikkaðir“.

Það var alveg „geðveikt“ í gær og þetta er „sturluð“ sýning. Þetta er okkur tamt að nota um hluti sem eru mjög jákvæðir. Samt getum við verið sammála um alvarleika veikindanna og hvað það þýðir að veikjast svona alvarlega,“ segir Björn Thors í Síðdegisþættinum á K100, en hann fer með einleik í verðlaunasýningunni Vertu Úlfur sem fjallar meðal annars um geðheilbrigðismál. 

„Þannig að þetta er bæði orðaleikur en vekur okkur líka til umhugsunar um manns eigin fordóma og afstöðu manns til þeirra mála,“ bætti Björn við í viðtalinu við þá Sigga Gunnars og Loga Bergmann eftir að sá fyrrnefndi mætti á sýninguna sem hreyfði að sögn hans mikið við honum. 

Sérstakt að stoppa sýninguna

Á þeirri sýningu sem Siggi fór á þurfti þó að stöðva sýninguna vegna þess að einn áhorfandi þarfnaðist læknisaðstoðar eftir að það leið yfir hann. Björn, sem hringdi sjálfur á sjúkrabíl, sagðist ekki vita neitt um afdrif áhorfandans en vonaði að það væri í lagi með hann. 

„Það er svolítið sérstakt að stoppa sýningu í miðju kafi. Við erum vanari þessu í leikhúsinu, að æfa sýningar og þurfa að stoppa og spóla til baka og byrja aftur og eitthvað. Maður hefur meiri áhyggjur af áhorfendum. Að þeir detti úr takti, detti út úr sýningunni. 

Það er dálítið magnað hvað gerist í leikhúsinu. Það verður sannarlega ákveðin orka í húsinu og hún breytist við svona uppákomu. 

Það verður öðruvísi hlustun í salnum í smá tíma. Það tekur smá tíma að ná fólkinu til baka til manns,“ sagði Björn.

Hlustaðu á allt spjallið við Björn Thors í Síðdegisþættinum í heild sinni í spilaranum hér að neðan. 

 

mbl.is

#taktubetrimyndir