Breytingarskeiðið á ekki að vera tabú

Halldóra Skúladóttir frá kvennaráð.is og Arna Engley, vörumerkjastjóri femarelle ræddu …
Halldóra Skúladóttir frá kvennaráð.is og Arna Engley, vörumerkjastjóri femarelle ræddu um breytingarskeiðið K100

Konur geta upplifað um 30-50 einkenni á breytingarskeiðinu, bæði andleg og líkamleg og geta afleiðingarnar verið margskonar. Geta konur meðal annars dottið út af vinnumarkaði og geta einkennin haft áhrif á sambönd og hjónabönd.

Þetta segir Halldóra Skúladóttir frá Kvennarad.is en hún mætti í Ísland vaknar og ræddi um breytingarskeiðið ásamt Örnu Engley vörumerkjastjóri fyrir Femarelle

„Nú skil ég af hverju ég skildi“

Sagði Halldóra að það vantaði vitundarvakningu um breytingarskeiðið sem væri enn mikið „tabú“ í samfélaginu. 

„Ég er búin að fá frá nokkuð mörgum konum sem segja: „Nú skil ég af hverju ég skildi“,“ útskýrði hún.

„Það byrjar ákveðin togstreita og margar konur hafa sagt mér að þær þora ekki einu sinni að ræða þetta við mennina sína af því að breytingarskeiðið er svo mikið tabú,“ sagði Halldóra sem segir mikilvægt að karlmenn fræðist líka um breytingarskeiðið. 

„Af því að við erum öll með konur í lífinu okkar,“ bætti hún við.

Sjálf segir hún að einkenni breytingarskeiðsins hafi komið henni virkilega á óvart en hún upplifði aðallega andleg einkenni en ekki hita og svitaköst sem svo oft eru tengd við breytingarskeiðið. Margar konur upplifa þó ekki þessi „þekktustu“ einkenni að sögn Halldóru.

Sökk ofan í djúpa holu

„Ég var svona 46 ára þegar ég fór að finna fyrir miklum kvíða og miklu þunglyndi. Og ég bara sökk ofan í rosa djúpa holu.

Nú starfa ég við það að hjálpa fólki með andlegu líðanina sína, ég er búin að gera það í 20 ár. Þannig að þetta var rosalega skrítið. Það var bara komin einhver kona sem settist að í mér og ég bara þekkti hana ekki,“ sagði Halldóra sem einnig upplifði rosalegan kláða sem er annað einkenni breytingarskeiðsins sem hún vissi ekki af. 

Sagði hún að það mikilvægasta sem konur sem eru að byrja á breytingarskeiði geti gert sé  að stýra streitunni sinni en hún lýsti þeim áhrifum sem streita getur valdið fyrir konur á breytingarskeiði í viðtalinu.

Einnig geta töflur, eins og Femarelle, sem styðja við eðlilega hormónastarfsemi, hjálpað til að sögn þeirra Halldóru og Örnu.

Hlustaðu á Halldóru og Örnu ræða um breytingarskeiðið, einkenni þess og ráð til að auðvelda konum lífið á þessum tíma í spilaranum hér að neðan. 

 

mbl.is

#taktubetrimyndir