Ófærð „algjört ævintýri“

Ólafur Darri Ólafsson leikari er spenntur fyrir viðtökum á þriðju …
Ólafur Darri Ólafsson leikari er spenntur fyrir viðtökum á þriðju seríu Ófærðar. Árni Sæberg

„Þetta er búið að vera algjört ævintýri. Vonum framan, allavega mínum vonum,“ segir Ólafur Darri um fyrstu tvær Ófærð seríurnar en þriðja þáttröð af þáttunum sem hafa farið sigurför um heiminn hóf göngu sína á RÚV á sunnudag. Ólafur mætti í í Síðdegisþættinum á K100 föstudag og ræddi um þættina og þau fjölmörgu verkefni sem hann hefur tekið þátt í upp á síðkastið.

„Ég efast ekki um að Balti – að þetta hafi verið „successið“ sem hann vildi og stefndi á. Þá held ég að þetta hefði ekki getað farið betur,“ sagði Ólafur og átti við Baltasar Kormák leikstjóra Ófærðar. 

Covid hafði lítil áhrif

Aðspurður segir hann ótrúlegt hvað Covid hafi haft lítil áhrif á vinnuna í þriðju seríu Ófærðar. 

„Auðvitað þurftum við að halda einhverjum fjarlægðarmörkum og með grímur og svo framvegis. En að mér vitandi smitaðist enginn af Covid í Ófærð. Og mér fannst fólk vera rosa tillitssamt að reyna að passa upp á sig vitandi það að það var að taka þátt í einhverju sem þú veist – íslensk kvikmyndagerð – við erum ekki með of mikið af peningum. Og við megum illa við að þurfa að loka og pakka öllu saman,“ sagði Ólafur sem bendir á að Baltasar Kormákur leikstjóri hafi tekið stóra áhættu með fyrstu seríuna af Ófærð og nánast lagt fyrirtækið undir.

Breyta kvikmyndalandslagi á Íslandi

Sagði hann miklar framkvæmdir og uppbyggingu vera í gangi á Íslandi. 

„Það eru rosa dýrar og flottar framkvæmdir að fara fram. Það er svolítið verið að breyta þessu kvikmyndalandslagi á Íslandi með því að búa til alvöru stúdíó,“ sagði hann og bætti við að hann vonaði innilega að allt gangi vel. 

Þá ræddi Ólafur Darri um verkefni sem hann hefur unnið um allan heim á síðastliðnum mánuðum en hann dvaldi meðal annars frá mars fram í ágúst í Ástralíu og vann að þáttunum The Tourist fyrir BBC og HBO Max.

„Það var svolítið erfitt af því að fjölskyldan gat ekki komið með mér. Ég var bara í fjóra mánuði bara að „plebbast“,“ sagði Ólafur og lýsti aðstæðum í Ástralíu.

 Hlustaðu á viðtalið við Ólaf Darra í heild sinni í spilaranum hér að neðan. 

 

mbl.is

#taktubetrimyndir