Anna ruglaðist á vinnustöðum – „Þau voru farin að leita í ruslagámum“

Anna Sonda er mjög sáttur starfsmaður Grillmarkaðarins eftir mistökin afdrifaríku.
Anna Sonda er mjög sáttur starfsmaður Grillmarkaðarins eftir mistökin afdrifaríku. Ljósmynd/Aðsend

Tíst frá hinni 15 ára gömlu Önnu Sonde hefur vakið gífurlega athygli á Twitter síðastliðna daga en þar greindi hún frá því að hún hefði óvart mætt á prufuvakt á Grillmarkaðnum þegar hún átti að mæta í Grillhúsið sem olli því meðal annars að lögreglunni var blandað í málið.

Hún ræddi þetta í Síðdegisþættinum í gær en hún kveðst hafa verið búin að vinna á Grillmarkaðnum í tvo tíma áður en hún uppgötvaði mistökin.

„Svo rjúka bara mamma og pabbi inn og bara: „Þú átt ekkert að vera hérna.“ Ég vissi ekkert hvað þau voru að tala um. „Þú átt að vera á Grillhúsinu,““ útskýrði Anna en hún segir foreldra sína hafa haft gífurlegar áhyggjur eftir að hafa séð staðsetningu Önnu á „snapmaps“, sem er staðsetningarbúnaður inni á samfélagsmiðlinum Snapchat, en þar leit út eins og sími Önnu væri í húsasundi. Gerðu foreldrar hennar þá lögreglunni viðvart.

„Út af því að Grillmarkaðurinn er svona pínu inni í húsasundi þá voru þau farin að leita í ruslagámum þarna í kring,“ sagði Anna sem segist í kjölfarið hafa farið á prufuvakt í Grillhúsinu. Áður en hún fór hafi þó Grillmarkaðurinn boðið henni starf hjá þeim sem hún ákvað að taka. 

Hlustaðu á Önnu lýsa aðstæðunum í Síðdegisþættinum í spilaranum hér að neðan. 

 

mbl.is
Í loftinu núna
Endalaus tónlist

#taktubetrimyndir