Auðunn: „Þetta er búið að vera lyginni líkast“

Auðunn Blöndal segir Leynilögguna vera Hollywood-mynd sem gerist á Íslandi …
Auðunn Blöndal segir Leynilögguna vera Hollywood-mynd sem gerist á Íslandi með Íslenskan húmor. Skjáskot úr stiklu

Auðunn Blöndal fer með aðalhlutverk í íslensku kvikmyndinni „Leynilögga“ en myndin hefur fengið frábæra dóma á kvikmyndahátíðum um allan heim.

Auðunn ræddi við morgunþáttinn Ísland vaknar í morgun um myndina en hann segir alþjóðlegan áhuga hafa komið skemmtilega á óvart en myndin verður frumsýnd hér á landi næstkomandi miðvikudag, 20. október.

„Þetta er búið að vera  lyginni líkast ef ég á að vera hreinskilin. Eitthvað sem við bjuggumst bara aldrei við. Ég hélt að við værum að gera svona skemmtilega popp og pepsi bíómynd fyrir íslenskan markað,“ sagði Auðunn. „En svo allt í einu er þetta komið á 5 eða 6 verðlaunahátíðir um allan heim,“ bætti hann við.

„Leynilögga“ fær til að mynda betri dóma á kvikmyndagagnrýnandasíðunni IMDb, þar sem hún fær 8,1 í einkunn, en nýja James Bond myndin „No Time To Die“ sem fær 7,6 í einkunn en Auðunn hló þegar honum var bent á það.

 Hollywood-mynd sem gerist á Íslandi

„Ef einhver er búinn að sjá Bond þá má ekki búast við alveg það sama hjá okkur. Því það var búið að reikna að myndin okkar kostaði 0,03% af því sem „The Fast and The Furious“ kostaði. Þannig að bara „trailerinn“ hans The Rock er dýrari heldur en myndin okkar,“ sagði Auðunn og uppskar hlátur í stúdíóinu.

Myndin fjallar um Bússa lögreglumann, sem leikin er að Auðunni, sem er fyllibytta og spilafíkill og lendir í ýmsum hremmingum og hasar.

„Það sem gerir þessa mynd skemmtilega er að þetta er Hollywood-mynd sem er að gerast á Íslandi,“ sagði Auddi og benti á að í myndinni sé að mynda bankarán niðri í bæ og Kínahverfi í Kolaportinu.

Stikla fyrir „Leynilöggu“ má sjá hér að neðan. 

Sjáðu viðtalið við Auðunn ræða um „Leynilöggu“ í spilaranum hér að neðan.

 

mbl.is
Í loftinu núna
Endalaus tónlist

#taktubetrimyndir