Skammarhula yfir lyfjagjöf fyrir ADHD – „Margir af flottustu snillingum heims hafa ADHD“

„Margir af flottustu snillingum heims hafa ADHD en hafa getað …
„Margir af flottustu snillingum heims hafa ADHD en hafa getað nýtt það til góðs,“ segir Hrannar Björn Arnarsson, framkvæmdastjóri ADHD-samtakanna, en októbermánuður er vitundavakningarmánuður ADHD. Jesper Sehested

Þeir sem geta aðlagað líf sitt þessu geta blómstrað með þessa eiginleika og margir af flottustu snillingum heims hafa ADHD en hafa getað nýtt það til góðs,“ segir Hrannar Björn Arnarsson, framkvæmdastjóri ADHD-samtakanna, en októbermánuður er vitundavakningarmánuður ADHD. Hann mætti í morgunþáttinn Ísland vaknar á dögunum og ræddi um þennan eiginleika sem 7-10% Íslendinga fæðast með. 

Hrannar Björn Arnarsson.
Hrannar Björn Arnarsson.

Sagði hann augu almennings vera að opnast um það hverjir glíma við ADHD og eru jafnvel ógreindir.

„Það eru fleiri og fleiri að átta sig á því að það sem hefur verið undirliggjandi vandamál hjá þeim er ADHD en það hefur birst í ýmsu öðru. Sumir hafa ekki getað sofið, aðrir hafa bara einhvern veginn misst fótanna og ekki getað einbeitt sér í námi eða að lestri eða einhverju sem þeir eru að gera – einhvern veginn endað úti í skurði,“ sagði Hrannar.

„Þeir sem vita af þessu strax frá upphafi geta brugðist við. Bæði aðlagað líf sitt þessum eiginleikum og það er fullt af fólki sem gerir það. Listamenn og aðrir sem þurfa ekki þessa festu geta stundað sína iðju án þess að vera í þessum föstu römmum; mæta klukkan sex og vera til tíu, að gera þetta allt í svona kössum eins og skólakerfið til dæmis ætlast til af okkur,“ sagði hann og bætti við: 

„Þannig að með því að tala um þetta, viðurkenna þetta og byggja á styrkleikum þess verður þetta okkur og mannkyninu til gæfu eins og það hefur verið fram að þessu.“

Stöðugur áróður

Hrannar segir þó að skömmin hvað varðar ADHD hafi minnkað talsvert, sem hann segir vera það góða við umræðuna. Það sé þó hellingur eftir og þá helst skömmin sem fylgir lyfjagjöf við ADHD. 

„Það er einhvern veginn stöðugur áróður um að lyfin séu eitthvað vont en ekki gott. Fyrir suma er þetta algjör lífsbjörg. Gerir þeim kleift að stunda nám og gera ýmislegt sem þau hefðu ekki ráðið við öðruvísi. Sannarlega breytist lífið. Það er ennþá einhver skammarhula yfir lyfjagjöf í kringum ADHD,“ sagði Hrannar. 

Hlustaðu á viðtalið við Hrannar, framkvæmdastjóra ADHD-samtakanna, í spilaranum hér að neðan.mbl.is
Í loftinu núna
Endalaus tónlist

#taktubetrimyndir