Ótrúleg Robin Williams-eftirherma vekur athygli

Jamie Costa þykir ná leikaranum Robin Williams nokkuð vel.
Jamie Costa þykir ná leikaranum Robin Williams nokkuð vel. Samsett ljósmynd: skjáskot af YouTube/MIKE BLAKE

Stutt myndband af youtubestjörnunni Jamie Costa í hlutverki Robin Williams hefur vakið mikla athygli síðan myndbandið, sem er látið líta út eins og prufumyndband fyrir kvikmynd, birtist á youtubesíðu Costa á mánudag en yfir milljón áhorf eru á myndbandið.

Myndbandið er þó ekki stikla fyrir raunverulega kvikmynd heldur virðist hér vera um að ræða persónulegt verkefni Costa, sem var líklega gert í þeim tilgangi að vekja athygli á leikhæfileikum hans og hugsanlega til að komast á kortið hjá kvikmyndaframleiðendum. 

Aðdáendur leikarans heitna virðast flestir algjörlega heillaðir af leiknum en Jamie Costa hefur áður deilt myndböndum af sér að leika Robin Williams við góðar undirtektir.

Sumir í athugasemdum ganga jafnvel svo langt að segja að hann eigi að vinna Óskarsverðlaun fyrir leik sinn. Þá grátbiðja margir um kvikmynd í fullri lengd, með Costa í aðalhlutverki, um ævi Robins Williams en eins og flestir vita féll hann fyrir eigin hendi í ágúst 2014 eftir langa baráttu við þunglyndi og kvíða.

Myndbandið má sjá hér að neðan.

mbl.is
Í loftinu núna
Endalaus tónlist

#taktubetrimyndir