„Eurovision er ennþá klikkaðra en það lítur út fyrir að vera í myndinni“

Búningar og hljóðfæri gagnamagnsins Daði og Gagnamagnið verða meðal annars …
Búningar og hljóðfæri gagnamagnsins Daði og Gagnamagnið verða meðal annars til sýnis á eurovisionsafninu á Húsavík. AFP

Mikil eftirvænting er í loftinu á Húsavík um þessar mundir þar sem sérstakt Eurovision-safn og sýning verður opnað á föstudag en í vikunni verða jafnframt þau 10 lög sem munu keppa í Söngvakeppninni, undankeppni Eurovision á Íslandi, valin á Húsavík þar sem framkvæmdastjórn Söngvakeppninnar mun dvelja. Greta Salóme eurovisionstjarna verður með atriði á opnuninni ásamt Óskarskórnum og boðið verður upp á æsispennanndi Eurovision Pub Quiz um kvöldið.

Örlygur Hnefill Örlygsson, stofnandi safnsins, ræddi við morgunþáttinn Ísland vaknar um opnunina í gær en hann segir áhuga Bandaríkjamanna hafa komið á óvart, bæði hvað varðar safnið en einnig Ja Ja Ding Dong-barinn sem hann opnaði eftir að eurovisionmyndin Eurovision Song Contest: The Story of Fire Saga kom út í fyrra. 

„Við erum loksins að fara að opna [sýninguna]. Okkur finnst þetta vera orðinn langur tími en þetta er nú ekki nema rétt rúmt ár frá því myndin kom út. Svo þetta er nú kannski búið að ganga þokkalega hratt,“ sagði Örlygur sem segist þegar hafa fengið mikið magn af sýningargripum, svo sem búningum og hljóðfærum, fyrir sýninguna sem verður að hans sögn lifandi og breytileg.

Örlygur Hnefill Örlygsson.
Örlygur Hnefill Örlygsson. mbl.is/Sigurður Bogi

Sökkva sér niður í gamlar keppnir

„Það kom rosalega mikið af Bandaríkjamönnum. Það sem við áttuðum okkur á varðandi myndina – þegar við byrjuðum þetta verkefni áttum við von á að hér myndu koma alveg stórir hópar af eurovisionaðdáendum frá Evrópu. En myndin eiginlega bjó til alveg nýjan hóp sem er eurovisionaðdáendur í Ameríku. Þau þekktu ekkert þessa keppni,“ sagði Örlygur.

„Málið með myndina. Við erum með þessa klikkuðu álfa og allt það, ég veit það. En Eurovision er ennþá klikkaðra en það lítur út fyrir að vera í myndinni. Það er það sem Bandaríkjamenn eru að fatta núna og eru að sökkva sér niður í gamlar keppnir af YouTube og svona. Þannig að þetta er alveg nýr hópur,“ sagði hann og bætti við að stjórn Eurovision hefði staðfest þennan aukna bandaríska áhuga.

„Þau eru að fá mikinn áhuga frá Bandaríkjunum,“ sagði Örlygur.

Hann staðfestir að nokkrir gestir hafa þegar fengið að líta inn í rýmið þar sem safnið verður en meðal gesta eru foreldrar Árnýjar Fjólu Ásmundsdóttur í Gagnamagninu en sjá má þau í færslu safnsins hér fyrir neðan ásamt hljómborði Gagnamagnsins. 

 Hlustaðu á Örlyg í viðtali um eurovisionsýninguna í spilaranum hér að neðan.

 

mbl.is

#taktubetrimyndir