Fjölmargir vilja taka þátt í Eurovision

Rúnar Freyr (t.v) og Daði Freyr sem keppti í Eurovision …
Rúnar Freyr (t.v) og Daði Freyr sem keppti í Eurovision fyrir Ísland ásamt gagnamagninu í fyrra en Söngvakeppnin var ekki haldið það ár. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Um 160 lög voru send til RÚV fyrir forkeppni Eurovision hér á landi, Söngvakeppnina, en eins og alþjóð veit var engin forkeppni haldin hér á landi í fyrra þegar Daði og gagnamagnið fóru fyrir hönd Ísland til Hollands í Eurovision. Eurovision 2022 mun þó fara fram í Tórínó á Ítalíu.  Rúnar Freyr Gíslason, verkefnastjóri Söngvakeppninnar á RÚV, staðfesti þetta í Helgarútgáfunni á K100 en hann segir þetta vera með stærri árum forkeppninnar hvað varðar fjölda umsókna.

„Valnefndin á ærið verk fyrir höndum og hefur núna hafið störf,“ sagði Rúnar Freyr.

Valnefndin er að sögn Rúnars skipað fulltrúum frá RÚV, FÍH (Félagi íslenskra hljómlistamanna) og FTT (Félagi tónskálda og textahöfunda).

„Þetta er fagfólk sem hlustar á öll þessi lög og gefur þeim einkunnir og skilar svo til framkvæmdastjóranna okkar sem eru að stússast í þessu. Svona ráðgefandi álit á hvaða lög eigi að koma til greina,“ útskýrði Rúnar Freyr.

„Þessi nefnd er aðallega að spá í gæði laganna. Það sem við erum að spá í líka, sem erum að gera sjónvarpsþáttinn; Söngvakeppnina, er fjölbreytileikinn, kynjajafnrétti og hvað er gott sjónvarp.

Af því að Eurovision og Söngvakeppnin  er auðvitað og ekki bara lagakeppni. Þó þetta heiti söngvakeppni þá er þetta auðvitað svo margt annað. Það er það skemmtilega við þessa keppni. Hún er líka sviðsetningin og búningarnir og bara allt í kringum þetta,“ útskýrði Rúnar Freyr en hann staðfesti að fyrsta forkeppniskvöldið verði 19. febrúar næstkomandi og að úrslitakvöldið verði 5. mars.

Rúnar ræddi keppnina og rifjaði upp hlutverk sitt sem hinn ítalski Pepe Luigi Romano í atriði Silviu Nótt (sem leikin var af Ágústu Evu) í Eurovision árið 2006 en hægt er að hlusta á allt viðtalið við Rúnar Frey í spilaranum hér að neðan. 

mbl.is
Í loftinu núna
Endalaus tónlist

#taktubetrimyndir