Kennir foreldrum bleyjulaust uppeldi

Tanit Karolys ræddi um bleyjulaust uppeldi í morgunþættinum Ísland vaknar.
Tanit Karolys ræddi um bleyjulaust uppeldi í morgunþættinum Ísland vaknar. K100/Coloubox

Í dag er meðalaldur barna þegar þau hætta með bleyju um 36 mánaða eða þriggja ára og merki eru um að tíminn sem börn ganga með bleyju sé enn að lengjast. Þetta segir Tanit Karolys, umbreytingarþjálfari og leiðbeinandi, en hún heldur námskeið í svokölluðu bleyjulausu uppeldi þar sem foreldrum er kennt að lesa í merki barns síns og efla börnin í að láta vita þegar þau þurfa að nota koppinn.

„Við erum ekki að tala um bleyjulaust uppeldi þar sem barnið er nakið allan daginn. Við erum að nota bleyjur á nýjan hátt,“ sagði Tanit í morgunþættinum Ísland vaknar þar sem hún ræddi um bleyjulaust uppeldi. 

Tvöfaldast frá 6. áratugnum

Hún bendir á að meðalaldur barna hafi lengst talsvert ef litið er á tölur frá Bandaríkjunum en þar var meðalaldur barna til að hætta með bleyju um 18 mánaða á sjötta áratugnum. Eins og áður kom fram hefur sú tala tvöfaldast en Tanit segir Ísland vera á mjög svipuðum stað varðandi þetta og Bandaríkin.

„Markmiðið er ekki að taka bleyjurnar en að losna við nauðsynina fyrir því að nota bleyjur eins og klósettið,“ sagði Tanit sem segir börn sýna augljós merki um það að þau þurfi að létta af sér frá fæðingu.

Hún bendir á að öll spendýr í heiminum vilji losa þvag eða hægðir annarsstaðar en á þau sjálf en að maðurinn hafi í nútímanum vanið börnin á að nota bleyjur sem valdi því að þau missi tilfinninguna og hætta að láta vita þegar þau þurfa að losa.

Sjálf á Tanit dóttur sem ólst upp við bleyjulaust uppeldi og var farin að biðja um að nota koppin sjálf við 10 mánaða aldur. 

„12 mánaða slepptum við bleyjum. Ekki af því að við þjálfuðum hana. Við vorum ekki að gera neitt – en afþví að hún lét mig alltaf vita,“ sagði Tanit sem segir aðferðin alltaf vera að verða vinsælli.

Hlustaðu á Tanit ræða og útskýra um bleyjulaust uppeldi í spilaranum hér að neðan en hægt er að nálgast upplýsingar um þetta á vefsíðu Tanit.

 

mbl.is

#taktubetrimyndir