Baggalútur verður loksins með jólatónleika!

Hljómsveitin Baggalútur mun skemmta gestum í desember með jólatónleikum, mörgum …
Hljómsveitin Baggalútur mun skemmta gestum í desember með jólatónleikum, mörgum til mikillar gleði en tónleikarnir hafa löngu fest sig í sessi á aðventunni hjá fjölmörgum Íslendingum.

Hljómsveitin Baggalútur verður loksins með jólatónleika í ár! Bragi Valdimar og Guðmundur Kristinn Jónsson í hljómsveitinni staðfestu þetta í morgunþættinum Ísland vaknar í morgun þar sem þeir frumfluttu nýjasta lag sitt, Ég á það skilið.

Hljómsveitin þurfti að hætta við sína árlegu jólatónleika í fyrra sökum heimsfaraldurs, eins og svo margt annað tónlistarfólk, en hljómsveitarmeðlimir eru nú himinlifandi að geta boðið upp á tónleika á ný í desember.

„Þetta var náttúrlega sett upp á sínum tíma sem ádeila á fyrirbærið jólatónleika en ég held að við séum löngu orðnir það sem við vorum að gera grín að,“ sagði Bragi áður en þeir Guðmundur staðfestu að jólatónleikarnir væru nú orðnir vel yfir hundrað.

Tónleikarnir eru ekki enn komnir í sölu en þeir verða auglýstir í bráð að sögn Guðmundar og Braga.

Sögðust þeir vera byrjaðir að taka upp ný jólalög en það að finna mynd fyrir plakatið væri eitt mesta vesenið. Auk þess væru einhverjar vangaveltur í loftinu um það hvort nauðsynlegt yrði að fara í hraðpróf fyrir tónleikana en drengirnir sögðust vonast eftir meiri tilslökunum. Tónleikarnir væru þó í bígerð.

Bragi og Guðmundur ræddu jólatónleikana, tónlistina og lífið á K100 en hlusta má á viðtalið hér að neðan. Hlusta má á nýja lagið, Ég á það skilið, neðst í fréttinni.

 

mbl.is
Í loftinu núna
Endalaus tónlist

#taktubetrimyndir