Anna Kristjáns seldi allt og er frjáls eins og fuglinn

Anna Kristjáns tenerífbúi hefur enn ekki fundið þann stað sem …
Anna Kristjáns tenerífbúi hefur enn ekki fundið þann stað sem hún vill festa rætur með húsnæðiskaupum en hún seldi allt sitt á Íslandi og leigir nú íbúð á Tenerife. K100

„Nú er ég frjáls og get gert hvað sem ég vil. Ég get farið hvert á heim sem ég kæri mig um en ég ákvað að prófa að vera hér fyrst,“ segir Anna Kristjáns Tenerifebúi, bloggari og fyrrverandi vélstjóri. Hún ræddi við Sigga Gunnars og Loga Bergmann í Síðdegisþættinum í beinni frá Tenerife þar sem voru staddir á vegum Aventura.

Hún ræddi um lífið á Tenerife þar sem hún sagði að sér liði afar vel og sagði frá ákvörðun sinni um að selja allt sem hún átti á Íslandi til að vera frjáls til að gera hvað sem er og fara þangað sem hún vildi.

„Það er yndislegt að vera hérna. En það er stundum svolítið kalt hérna á veturna,“ sagði Anna í Síðdegisþættinum og bætti við að það kaldasta sem hún hefði upplifað síðan hún flutti til eyjarinnar í ágúst 2019 væri um 13 gráður. Í slíkum kulda þyrfti hún að sofa með sæng sem hún gerir ekki vanalega enda eru húsin yfirleitt ekki kynt.

Anna sagðist ekki hafa viljað skuldbinda sig með því að kaupa íbúð á Tenerife en hún leigir nú tveggja herbergja íbúð á eyjunni.

Önnubarinn bestur

„Kosturinn hjá mér er að ég er með mjög stórar svalir og við köllum þær Önnubar. Ég er með stóran ísskáp á svölunum,“ sagði Anna kímin og jánkar því að hann sé að sjálfsögðu fullur af Dorada, bjór sem er bruggaður á Tenerife.

„Ég veit ekkert hvort ég verð hérna áfram, það getur vel verið að ég fari yfir á næstu eyju,“ sagði Anna.

Þá ræddi Anna Kristjáns um upplifun sína af heimsfaraldrinum og útgöngubanninu á Spáni. Hún sagði tímann hafa verið erfiðan en hún hefði ekki viljað missa af honum af ýmsum ástæðum.

Hægt er að sjá og hlusta á Önnu Kristjáns í viðtali við Síðdegisþáttinn í spilaranum hér að neðan.

mbl.is

#taktubetrimyndir