Fókusinn fór frá myrkrinu og á barnið

Æskuvinir Arnar Freyr Frostason og Helgi Sæmundur Guðmundsson skipa hljómsveitina …
Æskuvinir Arnar Freyr Frostason og Helgi Sæmundur Guðmundsson skipa hljómsveitina Úlfur Úlfur sem nú er sameinuð á ný. Eggert Jóhannesson

Rappsveitin Úlfur Úlfur er sameinuð á ný eftir að hafa verið í sundur frá því 2017. Þeir Arnar Freyr Frostason og Helgi Sæmundur Guðmundsson skipa hljómsveitina en Arnar ræddi við morgunþáttinn Ísland vaknar á dögunum um framtíðarplönin en hann segir hljómsveitina hafa verið á dimmum stað á síðustu plötu frá 2017. Síðan þá hafi margt breyst, sérstaklega eftir að hann átti barn með konu sinni, tónlistarkonunni Sölku Sól sem er ólétt af öðru barni þeirra núna.

„Það er augljóslega bara allt búið að vera í skrúfunni í svona tvö ár. En það er von að kvikna í brjóstinu á mér. En kannski er það bara að hljómsveitin er byrjuð aftur og það er gaman. Kannski er það eina vonin í lífi mínu,“ sagði Arnar kíminn.

Pása til að stofna fjölskyldur

„Við tókum okkur smá pásu til að stofna fjölskyldur og búa til börn og gera praktíska hluti fyrir fullorðinsárin. Eftir að hafa verið í bandinu stöðugt í 7-8 ár,“ sagði hann en síðasta plata Úlfur Úlfur var platan „Hefnið okkar“ frá 2017 sem Arnar Freyr segir að hafi verið mjög dimm og drungaleg.

„Nú erum við báðir búnir að finna hamingjuna. Núna skiljum við af hverju allir segja alltaf: „Bíddu bara þangað til þú eignast börn þá breytist allt.“ Það gerir það. Einhvern veginn allur fókusinn sem var orðinn á eitthvað myrkur innra með mér. Hann er kominn út á eitthvað barn. Mér er algjörlega sama um sjálfa mig,“ sagði Arnar Freyr.

Úlfur Úlfur gaf út glænýtt lag á dögunum, ásamt Sölku Sól, lagið Hamfarapopp sem heyra má hér:

Hlustaðu á viðtalið við Arnar Frey, þar sem hann talar um það sem framundan er hjá hljómsveitinni, nýja tónlist og væntanlega plötu, í spilaranum hér að neðan.

mbl.is

#taktubetrimyndir