Páll Óskar er syndandi sæðisfruma

Páll Óskar er flottur sem sæðifruma í Smokkaleiknum.
Páll Óskar er flottur sem sæðifruma í Smokkaleiknum. Samsett ljósmynd: Skjáskot/Á​sdís Ásgeirs­dótt­ir

Svokallaður smokkaleikur hefur verið gerður aðgengilegur í snjallsímum. Er þetta hluti af átaki Landlæknisembættisins, Durex-umboðsins og Apótekarans til að sporna við útbreiðslu kynsjúkdóma hér á landi en Íslendingar eru með Evrópumet í kynsjúkdómum. Þetta staðfestir Björn Thorsteinsson framkvæmdastjóri Gamatic, sem framleiðir leikinn, en hann ræddi við morgunþáttinn Ísland vaknar um hann.

„Þetta er skemmtilegur leikur en um leið mjög fræðandi. En það sem er eiginlega skemmtilegast við hann er að það er einn heiðursgestur í leiknum. Hann heitir Páll Óskar Hjálmtýsson. Hann er syndandi sæðisfruma í leiknum,“ sagði Björn kíminn en hann sagði að það hefði ekki verið erfitt að fá Pál til að taka að sér hlutverkið.

Reyna að ná til unga fólksins

„Nei, veistu, Páll er svo dásamleg manneskja að hann sá í fyrsta lagi um hvað málið snerist og sagði bara: „Ekki málið!“ Hann var meira að segja svo stoltur af teikningunni. Hann sendi okkur diskógallann sinn,“ sagði Björn.

„Það er einfaldlega verið að reyna að ná til unga fólksins á þeim miðlum sem það notar hvað mest, það er að segja snjallsímatæki. Og gengur út á það að fræða fólk um mikilvægi þess að nota smokkinn þar sem að því miður er Ísland að mörgu leyti með Evrópumet í kynsjúkdómasmitum miðað við höfðatölu,“ sagði Björn en hann segir að kynsjúkdómar hafi aukist mikið á síðustu árum.

„Það er ekkert grín ef þú leitar ekki meðferðar. Tökum sem dæmi klamydíu. Það er hægt að smitast af henni aftur og aftur eins og kannski flestir vita, en ef þú ert ekki með neina meðferð getur það leitt til ófrjósemi,“ segir Björn en hann bendir á að allir sem klára leikinn, sem er ekki nema fjögur borð, fari í pott og geti unnið glaðning.

Dregið verður 1. nóvember næstkomandi en leikinn má finna á vefsíðu smokkaleiksins, á App store og í Google Play í snjallsímum.

Hlustaðu á allt spjallið við Björn um smokkaleikinn hér fyrir neðan.

 

mbl.is

#taktubetrimyndir