Reka Íslendingabar í gömlu munkaklaustri

Her­dís Hrönn Ævars­dótt­ir er stofnandi og eigandi Íslendingabarsins Nostalgíu sem er til húsa í gömlu þýsku munkaklaustri við amerísku ströndina á Tenerife, ásamt manni sínum Sævari Lúðvíkssyni en hún ræddi við Loga Bergmann og Sigga Gunnars í Síðdegisþættinum en þeir eru nú staddir á Tenerife.

„Þetta er svolítið sérstakt hús. Það er kirkja þarna ennþá og hún er starfrækt. Við erum einmitt með á barnum hjá okkur: „Betra er að vera á barnum að hugsa um kirkjuna en að vera í kirkjunni að hugsa um barinn.“ Við höfum fengið presta til okkar og þeir segja bara: „Já, þetta er rétt,““ sagði Herdís

Klikkuð hugmynd sem varð að veruleika

„Anna Kristjáns vill að við förum að vera í munka- og nunnubúningum en við erum ekki ennþá búin að því,“ sagði hún en Anna Kristjánsdóttir vélstjóri er tíður gestur á barnum.

Aðspurð sagði Herdís að hugmyndin um að stofna íslenskan bar á Tenerife hefði í raun verið hálfgerð „klikkun“ og kom uppástungan upp á borðið fyrst í algjöru gríni en barinn var stofnaður í júlí 2016.

„Þetta er pínu klikkun. Við komum hingað í frí. Bara rosa næs eyja. Allt svo rólegt eitthvað og fínt. Og Sævar segir: „Ég væri bara til í að búa hérna.“ [Við vorum] bæði bara í fínni vinnu á Íslandi og ekkert vesen. Svo förum við eitthvað að djóka: „Við opnum bara bar. Það er enginn íslenskur bar hérna.“ Svo var þetta bara grín hjá okkur. En svo bara eitt kvöldið: „Af hverju ekki?““ sagði Herdís og bætti við: „En auðvitað er þetta klikkun. Við höfum aldrei komið nálægt veitingarekstri og eftir á að hyggja var þetta pínu klikkun en ef við hefðum vitað hversu klikkað þetta var þá hefðum við aldrei gert það.“

Herdís segir þau hjónin þó hafa komið ágætlega út úr faraldrinum.

Næstum uppselt á Þorláksmessukvöld

„Við sem betur fer höfðum átt okkar besta ár 2019, þannig að við áttum smá sparifé og það var bara lifað á því. Svo við náðum að halda okkur. Náðum að sigla í gegn,“ sagði hún. 

Hún segir þó að nú sé allt að smella og septembermánuður hafi gengið afar vel en Herdís bendir á að Þorláksmessukvöld á barnum, þar sem hjónin bjóða meðal annars upp á skötu og hangikjöt, sé næstum orðið uppselt nú þegar.

„Það segja allir að skatan bragðist mun betur hérna úti þegar setið er úti á torgi,“ sagði hún.

Mikið er um að vera á íslenska barnum Nostalgíu um þessar mundir, til að mynda kosningavaka í tilefni alþingiskosninga í dag. Hægt er að fylgjast með barnum á facebooksíðu Nostalgíu.

Sjáðu Herdísi ræða við Loga og Sigga um lífið á Nostalgíu og á Tenerife, finnska laugardaga og viðbrögð Spánverja við skötu.

mbl.is

#taktubetrimyndir