„Mjög margir sem halda að ég sé lesbía“

Þorbjörg Þorvaldsdóttir formaður samtakanna 78' vill auka sýnileika tvíkynhneigðra.
Þorbjörg Þorvaldsdóttir formaður samtakanna 78' vill auka sýnileika tvíkynhneigðra. Ljósmynd/Samtökin 78'

„Það er oft þannig að okkur er algjörlega gleymt í allri umræðu. Og það er svolítið kaldhæðnislegt í ljósi þess að við erum stærsti einstaki hópur hinseginfólks. Ef maður fer eitthvað að bera þetta saman út frá tölunum,“ segir Þorbjörg Þorvaldsdóttir formaður Samtakana '78 um sýnileika tvíkynhneigðra í hinseginsamfélaginu en nú er einmitt í gangi sýnileikavika tvíkynhneigðra.

Þorbjörg spjallaði við Loga Bergmann og Sigga Gunnars um þetta málefni á dögunum en hún sagði að tvíkynhneigðir fyndu oft fyrir fordómum og jafnvel að fólk efaðist um kynhneigð þeirra.

Margir vilji setja tvíkynhneigða í kassa

„Þetta kemur að manni frá báðum hliðum. Það er auðvitað stóra vandamálið í þessu og ástæða þess að við verðum að halda okkar merkjum svolítið á lofti og tala um tvíkynhneigð. Að fólk geti komið út um skápnum og fengið stuðning og ekki einhvern vegin efasemdir endalaust um sína kynhneigð,“ sagði hún. „Við skjönum þetta pínulítið. Fólk vill mjög mikið setja okkur í kassa algjörlega út frá því með hverjum við erum.

Nú hef ég verið með konunni minni frá því ég var 18 ára og það eru rosalega margir, jafnvel ennþá, þó að ég sé að reyna að vera mjög „vocal“ um það að ég sé tvíkynhneigð, þá eru mjög margir sem halda að ég sé lesbía,“ sagði Þorbjörg.

„Þetta skýrist ekkert af því með hverjum maður er. Við eignumst maka bara eins og aðrir en það breytir ekki kynhneigðinni okkar.“

Hlustaðu á Þorbjörgu spjalla um sýnileikaviku tvíkynhneigðra og mikilvægi sýnileikans í spilaranum hér að neðan.

 

mbl.is
Í loftinu núna
Endalaus tónlist

#taktubetrimyndir