Landsliðið keppir á morgun – Meðalaldur liðsins 20 ár

Íslandsliðið í mótorkrossi keppir á Ítalíu á morgun. Frá vinstri …
Íslandsliðið í mótorkrossi keppir á Ítalíu á morgun. Frá vinstri á myndinni af keppendum landsliðsins standandi má sjá þá Mána Frey Pétursson, 16 ára, Eið Orra Pálmarsson, 16 ára og Eyþór Reynisson, 28 ára. Á hjólinu má sjá þann síðastnefnda á Íslandsmeistararmóti sem fór fram í Bolaöldu í haust.

Íslenska landsliðið í mótorkrossi keppir í alþjóðlegu mótorkrosskeppninni „Motorcross of Nations“ eða MXON 2021 um helgina, 25.-26. september, í Mantova á Ítalíu. Landsliðið er að þessu sinni skipað mjög ungum og frambærilegum ökumönnum sem munu keppa í þremur flokkum. Það eru þeir Máni Freyr Pétursson og Eiður Orri Pálmarsson, en þessir drengir eru aðeins 16 ára gamlir. 

Með þeim er einn besti ökumaður landsins til margra ára í mótorkrossi, eða Eyþór Reynisson sem er að taka þátt í þessari keppni í 7. skiptið en hann er 28 ára. Samanlagt er meðalaldur íslenska liðsins 20 ár sem þykir afar ungt í íþróttinni en landsliðið keppir við 32 þjóðir um helgina.

Fyrsta skipti í sögunni sem kona er liðsstjóri

Björk Erlingsdóttir, í stjórn MSÍ, er liðsstjóri landsliðsins og er þetta í fyrsta skipti í sögu keppninnar sem kona er liðsstjóri í keppninni. 

Samkvæmt Björk Erlingsdóttur er „Motocross of Nations“, sem á sér rætur að rekja allt til stríðsloka, nokkurs konar „ólympíuleikar” mótorkross ökumanna sem fara fram árlega en Íslenska landsliðið í mótorkrossi hóf keppni árið 2007.

Liðið fór út til Ítalíu fyrir tæpum tveim vikum síðan til æfinga en gífurlegur undirbúningur er, að sögn Bjarkar, fyrir svona mót.

Keppt er í þremur riðlum á laugardag og er reglan er sú að samanlagt meðaltal bestu tveggja ökumanna frá hverju landi sem raði mönnum á ráslínu fyrir keppni á sunnudag.

Einungis 19 bestu þjóðirnar komast þá áfram í það sem kallast A-keppni en á sunnudagsmorgun spreyta svo hinar þjóðirnar sig og berjast um að sigra hina svo kallaða B-keppni og sigurþjóðin þar verður svo tuttugasta þjóðin inn í A-keppnina.

Á sunnudag, eftir hádegi, taka 20 bestu þjóðirnar þátt og berjast um hinn fræga „Will Champerlin” bikar, sem er farandbikar, og á sér langa sögu í keppninni. 

Hægt er að fylgjast með keppninni á facebooksíðu og instagramsíðu Motorsport.is.  

mbl.is
Í loftinu núna
Endalaus tónlist

#taktubetrimyndir