Katrín opnar sig – Bitrust yfir að fá ekki að ræða Eurovision

Katrín Jakobsdóttir opnaði sig í Síðdegisþættinum í dagsskárliðnum „20 ógeðslega …
Katrín Jakobsdóttir opnaði sig í Síðdegisþættinum í dagsskárliðnum „20 ógeðslega mikilvægar spurningar.“ K100

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra og formaður Vinstri grænna mætti í Síðdegisþáttinn og opnaði sig í „20 ógeðslega mikilvægum spurningum“ með Sigga Gunnars og Loga Bergmann.

Kom þar ýmislegt í ljós um forsætisráðherrann vinsæla en meðal annars hefur Katrín verið rekin úr skólakór og ætlaði að verða bóhem í París sem unglingur. Einnig sagði hún frá því að borðtennismarkmið hennar hafi farið í vaskinn vegna þess að ríkisstjórnin sprakk árið 2016. 

Þá sagðist hún glettnislega vera bitrust yfir því að hafa aldrei fengið boð í spjallþátt þar sem rætt er um Eurovision. Hún er að eigin sögn gríðarlegur aðdáandi söngvakeppninnar en eitt uppáhalds lagið hennar er ítalska lagið Grande Amore sem hún „blastar“ oft í bílnum á ferð sinni um landið.

Katrín Jakobsdóttir ræddi við Sigga og Loga í Síðdegisþættinum á …
Katrín Jakobsdóttir ræddi við Sigga og Loga í Síðdegisþættinum á K100, á léttu nótunum – korter í kosningar. K100

Katrín hefur að eigin sögn aldrei verið handtekin þó að hún hafi oft tekið þátt í mótmælum.

„Ég hef legið hérna í Lækjargötunni og meinað ráðherrabílnum för en ég var ekki handtekin,“ sagði Katrín kímin.

Tók á móti fréttafólki í þvottahúsinu

Hún viðurkenndi að hafa nokkrum sinnum tekið á móti fjölmiðlafólki, sem vildu taka hana í viðtal á heimili hennar, inni í þvottahúsi til þess að komast hjá því að taka til og til að trufla ekki heimilisfólkið, eiginmann hennar og syni hennar þrjá.

„Þetta er heimilið manns. Það verður allt að vera undir stjórn. Af því að þetta er líka bara heimilið þeirra. Og þeir eru ekki í framboði eins og mér er stundum bent á,“ sagði Katrín sem viðurkennir að synir hennar séu orðnir nokkuð leiðir á kosningabaráttum móður sinnar enda er þetta í sjötta sinn sem hún tekur þátt í kosningabaráttu og í fjórða sinn sem formaður.

Aðspurð viðurkenndi Katrín að hennar leyndi hæfileiki væri líklega sá að hún er mjög góður teiknari og hefur auk þess gaman af „concept“ list og ljósmyndun.

„Ég hef meira að segja fengið tilboð um að sýna eina seríu, ég legg ekki meira á ykkur,“ sagði Katrín og bætti við að slík sýning gæti verið á planinu síðar.

Hlustaðu á Katrínu ræða um lífið og tilveruna og svara „20 ógeðslega mikilvægum spurningum“ í spilaranum hér að neðan. 


 

mbl.is
Í loftinu núna
Endalaus tónlist

#taktubetrimyndir