Inga Lind tók starfinu í þakklætisskyni við Spánverja

Fjölmiðlakonan Inga Lind Karlsdóttir nýtur þess að vera ræðismaður Spánverja …
Fjölmiðlakonan Inga Lind Karlsdóttir nýtur þess að vera ræðismaður Spánverja á Íslandi þrátt fyrir að það geti oft verið krefjandi. Um þessar mundir nýtur hún þó lífsins í fríi á Tenerife. K100

Ingibjörg Lind Karlsdóttir, eða Inga Lind, er þekkt fyrir ýmislegt en hún er meðal annars ein þekktasta fjölmiðlakona landsins. Það kann hins vegar að koma einhverjum að óvart að hún er nú ræðismaður Spánverja á Íslandi. Hún ræddi við þá Sigga Gunnars og Loga Bergmann í beinni úr sólinni í Tenerife í gær um líf og starf.

Ingibjörg spjallaði við Loga Bergmann og Sigga Gunnars í beinni …
Ingibjörg spjallaði við Loga Bergmann og Sigga Gunnars í beinni í útistúdíói í sólinni á Hotel Troya á amerísku ströndinni á Tenerife. Þar eru drengirnir á vegum Aventura. K100

„Ég veit ekki hvernig ég kem mér alltaf í eitthvað svona sem ég veit ekkert hvað ég á að gera við. En ég hef verið að reyna að standa mig vel,“ sagði Inga og bætti við að hún hefði fengið frábæra konu, Kristínu Örnu, til að hjálpa sér með starfið.

„Spænskan mín er ekki alveg hundrað prósent svo að þegar það koma einhver vandamál sem við þurfum að díla við þá tekur hún algjörlega allan flókna pakkann,“ sagði Inga áður en hún útskýrði í stuttu máli hvað starfið felur í sér.

„Í því felst að við sinnum Spánverjum á Íslandi sem eru bæði búsettir þar sem eru hátt í 2.000 manns og svo þeim sem ferðast þangað til Íslands og þeir hafa verið um það bil 50 þúsund á ári. Þannig að það eru næg verkefni,“ sagði Inga og benti á að það væri ekkert sendiráð Spánverja á Íslandi heldur aðeins í Noregi.

Þá sagði Inga að hún hefði tekið starfinu í þakklætisskyni við Spánverja.

„Ég bjó á Spáni í þrjú ár með fjölskyldunni minni og Spánn var góður við mig og ég ætla að vera góð við Spán í staðinn í einhvern tíma,“ sagði hún.

Kanaríeyjar á topp tíu lista

Inga fræddi hlustendur um ýmislegt hvað varðar Spán og Kanaríeyjar í viðtalinu en hún benti meðal annars á að eyjarnar væri afskaplega vinsælar um þessar mundir fyrir fólk sem vill vinna annars staðar en heima hjá sér – og þá ekki aðeins vegna veðurblíðunnar.

„Hér er bara fjögurra prósenta fyrirtækjaskattur og sjö prósenta virðisaukaskattur. Þannig að þessar eyjar eru komnar á topp 10 lista fyrir fólk sem vill vinna annars staðar en heiman frá sér,“ útskýrði Inga.

Hlustaðu á allt viðtalið við Ingu Lind þar sem hún ræðir um Spán og fjölbreytt starf sitt sem ræðismaður Spánverja á Íslandi í spilaranum hér að neðan.mbl.is

#taktubetrimyndir