Fengu sér eldgosatattú eftir Íslandsferðina: „Það besta sem ég hef upplifað“

Mæðgurnar Jolanta Kaziukoniene og Gabija Kaziukonyte urðu algjörlega heillaðar af …
Mæðgurnar Jolanta Kaziukoniene og Gabija Kaziukonyte urðu algjörlega heillaðar af eldgosinu í Geldingadölum en þær fóru í sérstaka ferð hingað til lands í lok ágúst til að berja eldgosið augum. Hafði ferðin það mikil áhrif á þær mæðgur að þær ákváðu að fá sér húðflúð í stíl með mynd af eldgosinu. Ljósmyndir/Jolanta Kaziukoniene

„Eldfjallið sýndi sannarlega listir sínar. Langbesta „live-show“ sem ég hef séð allt mitt líf og það besta sem ég hef upplifað,“ segir Jolanta Kaziukoniene í samtali við K100.is en hún fór ásamt dóttur sinni Gabija Kaziukonyte í sérstaka ferð til Íslands, í lok ágúst, til að berja eldgosið í Geldingadölum augum. Eldgosið og Íslandsferðin heillaði mæðgurnar það mikið að þær ákváðu að fá sér húðflúr í stíl með mynd af eldgosinu.

Húðflúrið af eldgosinu í Geldingadal er sérhannað en Jolanta fékk …
Húðflúrið af eldgosinu í Geldingadal er sérhannað en Jolanta fékk sér húðflúrið rétt fyrir ofan ökkla en dóttir hennar, Gabija, á framhandlegginn.

Húðflúrið er byggt á teikningu af eldgosinu sem þær fengu listamann í London til hanna fyrir sig.

„Þetta er eitthvað sem dóttir mín stakk upp á fyrir löngu, að við ættum einhvern tímann að fá okkur húðflúr í stíl og þetta var fullkominn tími. Þetta var eitthvað sérstakt sem við sáum og nú erum við með minninguna um það á okkur,“ segir Jolanta.

Eldfjallið var í fullu fjöri

Mæðgurnar, sem eru litháískar að uppruna en hafa búið í Bretlandi í 13 ár, nutu Íslandsferðarinnar í botn en þær ákváðu að nýta tækifærið og ganga að eldfjallinu fyrsta kvöldið sem þær komu til landsins. Sú ákvörðun reyndist mæðgunum vel en eldfjallið var í fullu fjöri þetta tiltekna kvöld.

„Við notuðum tækifærið á meðan við gátum. Næstu daga var eldfjallið svo ekki virkt svo við ákváðum að ferðast um landið,“ segir Jolanta en þær mægður heimsóttu meðal annars Gullfoss, Geysi, Vík, Reynisfjöru, Skógarfoss, Dyrhólaey, Þingvelli og Bláa lónið á þeim fjórum dögum sem þær dvöldu á Íslandi.

Mægðurnar undirbjuggu sig að sögn Jolanta vel og fylgdust vel með virkni eldfjallsins en Jolanta hafði lengi fylgst með eldgosinu í gegnum vefmyndavél á netinu.

„Í sannleika sagt þá grét ég næstum því þegar ég sá hraunið í fjarlægð. Af því að þarna sá ég það með mínum eigin augum en ekki í gegnum vefmyndavél,“ sagði Jolanta.

Sjónarspil eldfjallsins í Geldingadal heillaði mæðgurnar alveg upp úr skónum.
Sjónarspil eldfjallsins í Geldingadal heillaði mæðgurnar alveg upp úr skónum.

Í lok ferðarinnar ætluðu mæðgurnar að ganga aftur að eldfjallinu en vegna þess hve slæmt veðrið var og mikil þoka ákváðu þær að skoða þess í stað nýja hraunið í Nátthaga sem var að sögn Jolanta afar mikilfenglegt.

„Það rauk upp úr hrauninu þegar regndroparnir snertu það enda er það enn heitt. Manni leið smá eins og það væri kominn heimsendir,“ sagði Jolanta.

Þriðja Íslandsferðin 

Þetta er í þriðja skipi sem Jolanta hefur komið til landsins en hún hefur mikla ástríðu fyrir Íslandi. Hún heimsótti landið í fyrsta sinn árið 2015 á 20 ára brúðkaupsafmæli sínu ásamt eiginmanni sínum þar sem hún upplifði það meðal annars að sjá norðurljósin í allri sinni dýrð. Í annað skipti ferðaðist hún til Íslands um hávetur með syni sínum. Jolanta vonast til þess að heimsækja landið aftur í framtíðinni og að ná þá að keyra hringinn í kringum Ísland.

Mægðurnar Jolanta Kaziukoniene og Gabuja Kaziukonyte eru afar ánægðar með …
Mægðurnar Jolanta Kaziukoniene og Gabuja Kaziukonyte eru afar ánægðar með nýju húðflúrin sín sem eru í stíl.


 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.990 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »

#taktubetrimyndir