Emmsjé Gauti vill fleiri börn og gleðst yfir CBD-vitundarvakningu

Það er ýmislegt á döfinni hjá Emmsjé Gauta en hann …
Það er ýmislegt á döfinni hjá Emmsjé Gauta en hann stefnir meðal annars á fleiri börn í framtíðinni og er sem stendur á fullu að flytja inn CBD olíu úr iðnaðarhampi. Ljósmynd/Aðsend

Rapparinn og athafnamaðurinn Gauti Þeyr Másson, eða Emmsjé Gauti eins og hann er oftast kallaður, kveðst ekki vera hættur barneignum en fyrir á hann þrjú börn með unnustu sinni Jovönu Schally.

„Ég á ógeðslega mikið af börnum og hóta fleirum. Þetta er ekki komið sko,“ sagði Emmsjé Gauti í morgunþættinum Ísland vaknar í morgun. Hann fullvissaði hlustendur þó um að Jovana væri ekki enn orðin ólétt þó að það væri á planinu í framtíðinni.

„Bara að ná að gifta sig og svo bara fleiri börn,“ sagði Emmsjé Gauti. 

Emmsjé Gauti mætti í Ísland vaknar á K100 í morgun.
Emmsjé Gauti mætti í Ísland vaknar á K100 í morgun.

„Algjör snilld“ fyrir alls konar kvilla

Þá ræddi hann um viðskipti sín með CBD hampolíu sem unnin er úr kannabisplöntunni en varan fékk leyfi hér á landi í fyrra en hann er einn af þeim sem hefur staðið að því að flytja inn olíuna.

„Þetta er algjör snilld fyrir alls konar „recovery“ og alls konar kvilla,“ sagði Emmsjé Gauti sem sjálfur kynntist olíunni í Bandaríkjunum þegar hann heyrði að hún gæti slegið á kvíða. 

Olían á að hafa margvísleg áhrif á bólgumyndun í líkama sem getur leitt meðal annars út í verki, kvíða og svefnvandamála að sögn Emmsjé Gauta.

„Þetta er olía sem þú setur undir tunguna,“ sagði Emmsjé Gauti sem segir gríðarlega vitundarvakningu vera í sambandi við iðnaðarhamp en hann benti á að meðal annars væri nú nýbúið að skipa starfshóp um framleiðslu og markaðssetningu á ólíunni.

„Þetta var flokkað sem eiturlyf, í baráttunni við eiturlyf þá datt iðnaðarhampurinn einhvern veginn inn í þennan flokk,“ útskýrði rapparinn en hann segir að þó að iðnaðarhampurinn sé skyldur maríjúana séu vörurnar afar ólíkar en CBD er meðal annars ekki vímugjafi.

Hlustaðu á allt viðtalið við Emmsjé Gauta í spilaranum hér að neðan en þar ræddi hann meðal annars um nýjustu tónlistina, væntanlega plötu sem hann vinnur nú að og væntanlega tónleika.

 

mbl.is

#taktubetrimyndir