Flaug 800 mílur til að dansa við afa sinn

Brúðurin Natalie Browning ferðaðist langa vegalengt með brúðarkjólinn sinn til …
Brúðurin Natalie Browning ferðaðist langa vegalengt með brúðarkjólinn sinn til að fá að dansa við afa sinn. Skjáskot/Natalie Browning

Það er svo sannarlega dýrmætt að eiga góðan afa. Ég á einn slíkan sem mér þykir óendanlega vænt um og ein af uppáhalds minningum mínum er þegar að ég og afi dönsuðum saman í brúðkaupi frænku minnar. Amma mín náði því á filmu og í hvert skipti sem ég heimsæki ömmu og afa ber ég augum þessa skemmtilegu mynd og brosi.

Brúðurin Natalie Browning á virkilega gott samband við afa sinn og því var mjög erfitt fyrir hana þegar afi hennar fékk heilablóðfall stuttu fyrir brúðkaup hennar og gat því ekki ferðast. Hún hafði hlakkað mikið til að dansa í brúðarkjólnum við afa sinn og lét það því ekki stoppa sig að afinn kæmist ekki í veisluna. Natalie er greinilega lausnamiðuð kona því hún ákvað einfaldlega að bóka flug svo hún gæti ferðast 800 mílur frá Virginíu til Flórída þar sem afi hennar er búsettur og dansað við hann klædd í brúðarkjólinn. Hún gerði sig til á leiðinni og ferðaðist með brúðarkjólinn í bleikum poka í handfarangri. Þegar hún mætti svo á dvalarheimili afa síns var hún fullklædd í brúðar dressið og þetta krúttlega dúó dansaði saman. Natalie segir að afi sinn hafi verið svo spenntur að dansa í brúðkaupinu og hún gat hreinlega ekki hugsað sér að ná ekki þessari fallegu stund. Þau hafa alla tíð verið góðir vinir en þar sem þau búa langt frá hvort öðru ná þau ekki að hittast nógu oft. Hún vildi einfaldlega að afi sinn vissi hvað hann væri henni mikils virði og náði svo sannarlega að sýna honum það. Svo fallegt!

Frétt af Tanks Good News og The Daily Mail.

mbl.is
Í loftinu núna
Endalaus tónlist

#taktubetrimyndir