Bjarni Ben opnar sig: Despacito er „eitt besta lag sem hefur verið samið“

Bjarni Ben er hræddur við Drauga og dýrkar lagið Despacito …
Bjarni Ben er hræddur við Drauga og dýrkar lagið Despacito og er með sér lagalista bara með Despacito ábreiðum.

Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins var gestur Loga Bergmanns og Sigga Gunnars í Síðdegisþættinum þar sem hann opnaði sig og svaraði „20 ógeðslega mikilvægum spurningum“. 

Spurður út í það hvernig honum þætti að taka þátt í kappræðum í sjónvarpi ásamt mörgum öðrum forystumönnum stjórnmálaflokkanna viðurkenndi hann að það þætti honum ekki gaman.

„Það er ekki gaman að standa með svona mörgum. Ég held að okkur þyki það öllum. Það er ekki einhver hroki hjá mér að vilja ekki vera með svona mörgu fólki. Það er erfitt fyrir þáttastjórnendur og þetta þynnist mikið út,“ sagði Bjarni sem bætti þó við að hann hefði þó ekki leyfi til að láta sér leiðast við slíkar aðstæður.

„Besta lag sem hefur verið samið“

Þá kom í ljós í þættinum að Bjarni gjörsamlega dýrkar lagið Despacito sem er hans helsta sakbitna sæla.

„Það hefur ekki komið neitt sumarlag eins og Despacito. Það er síðasta góða sumarlagið og ég er ennþá að spila Despacito. Ég er meira að segja með á „playlistanum“ mínu Despacito „cover“ lög. Það er semsagt bara heill playlisti með Despacito í ólíkum útgáfum,“ viðurkenndi Bjarni.

„Þetta er eitt besta lag sem hefur verið samið,“ bætti hann við en hann kveðst nota lagið mikið undir Snapchat-myndbönd sem hann tekur upp til gamans.

Viðurkenndi Bjarni þá að hann væri hræddastur við drauga og taldi hans helsta galla vera óstundvísi og of mikil símanotkun.

Hlustaðu á Bjarna Ben opna sig í „20 ógeðslega mikilvægum spurningum“ í spilaranum hér að neðan.


 

mbl.is

#taktubetrimyndir