Hommagrín sem er tíu árum of seint á ferðinni

Raggi kvikmyndagagnrýnandi er ekki hrifinn af Q-Force sem eru á …
Raggi kvikmyndagagnrýnandi er ekki hrifinn af Q-Force sem eru á Netflix.

Kvikmynda- og þáttagagnrýnandinn Ragnar Eyþórsson mætti í Síðdegisþáttinn að vana og ræddi  fullorðinsteiknimyndagrínþættina Q-force við Sigga Gunnars og Loga Bergmann. Þættirnir, sem eru aðgengilegir á Netflix, slógu ekki í gegn hjá honum en þeir fengu aðeins tvær stjörnur af fimm hjá Ragga.

Teiknimyndaþættirnir fjalla um mann í bandarísku lögreglunni sem útskrifast efstur í sínum flokki í lögregluskólanum en er lækkaður í tign þegar hann kemur út úr skápnum. Hann er sendur til Hollywood og er það með litla sveit af samkynhneigðu og hinsegin fólki.

„Núna tíu árum seinna er loksins eitthvað að gerast í hans umdæmi og hann fær stóra tækifærið og hans hýra sveit,“ sagði Raggi í Síðdegisþættinum. 

Einhæfir hommabrandarar

Sagði hann þættina þó vera um tíu árum of seint á ferðinni miðað við tíðarandann.

„Þetta er náttúrulega gamanefni og þeir eru að reyna að vera einstaklega hinsegin. Sem er eiginlega galli. Allir brandarar snúast um hversu hinsegin fólkið er,“ sagði Raggi. 

„Þetta eru svo miklar stereotýpur. Þetta er mannað af frábærum hinseginleikurum, Wanda Sykes og fleiri, og það ganga bara allir brandararnir út á einhæfa hommabrandara,“ sagði Raggi. 

Hlustaðu á Ragga gagnrýna Q-Force í spilaranum hér að neðan.

 Stiklu fyrir þættina má sjá hér að neðan.

mbl.is

#taktubetrimyndir