Dansa fyrir Duchenne: „Dansinn gerir allt betra“

Ægir og Hulda elska að dansa og deila gleðinni með …
Ægir og Hulda elska að dansa og deila gleðinni með fólki víðsvegar um heim. Ljósmynd/Aðsend

Ég hef ansi oft talað um gleðina sem fylgir því að dansa. Dansinn er svo dásamlegt listform sem hverjum og einum er frjálst að tjá á eigin vegu og dansinn á það til að dreifa gleðinni víða. Það er svo sannarlega þannig hjá mæðginunum Huldu Björk og Ægi en þau dansa saman í hverri einustu viku og taka myndband af því. Á hverjum föstudegi birtir Hulda svo myndbandið á samfélagsmiðlunum sínum og hafa þau heldur betur dreift mikilli gleði.

Ægir, sonur Huldu, er 9 ára gamall og glímir við vöðvarýrnunarsjúkdóminn Duchenne. Með dansmyndböndunum vill Hulda bæði vekja vitund um sjúkdóminn og veita gleði og kærleik út í samfélagið. Hún segir mikilvægt að minna fólk á það jákvæða og skemmtilega og dansinn er frábær leið til þess að hafa gaman.

Mæðginin hafa dansað ein heima í stofu og einnig við alls konar fólk. Bæði hafa þau dansað með fólki í raunheimi og með öðrum í gegnum samskipta forrit á borð við Zoom. Má þar nefna frábæra dansfélaga á borð við Katrínu Jakobs forsætisráðherra og Daða og Gagnamagnið.

Ægir og Hulda á góðri stundu.
Ægir og Hulda á góðri stundu.

Hulda segir dansinn gera allt betra og eru myndböndin góð leið til að vekja athygli. Þau Ægir hafa tekið upp vikuleg dansmyndbönd í tvö ár og hafa viðbrögðin verið ótrúlega jákvæð. Það er svo dásamlegt að geta glatt einhvern með því einu að hafa gaman!

Fyrir tveimur árum síðan dönsuðu mæðginin saman heima fyrir og segist Hulda einhverra hluta vegna hafa ákveðið að taka dansinn upp og deila honum. Sló það algjörlega í gegn og í kjölfarið ákváðu þau að halda áfram með þessa miklu dansgleði og birta myndbönd vikulega. Þau hafa átt í samskiptum við fólk víðsvegar um heiminn og myndað falleg og góð tengsl í gegnum dansgleðina. Einnig hefur fólk sýnt því mikinn áhuga að fá að dansa með þeim og má ég til með að deila því með ykkur að undirrituð ætlar að dansa með þeim við fyrsta tækifæri og getur ekki beðið! 

Mæðginin hafa gaman af alls konar tónlist en Ægir er svolítill rokkari í sér og dönsuðu þau um daginn við lag ofur töffaranna í ítölsku rokksveitinni Maneskin. Saman hafa þau skapað yndislegar minningar og ég mæli eindregið með því að fylgjast með Huldu og Ægi dreifa dansgleðinni í hverri viku! 

Hægt er að horfa á bráðskemmtileg myndbönd Ægis og Huldu hér

mbl.is
Í loftinu núna
Endalaus tónlist

#taktubetrimyndir