„Við höfum alltaf val“

Guðrún Jóna Guðlaugsdóttir sem missti son sinn Orra árið 2010 …
Guðrún Jóna Guðlaugsdóttir sem missti son sinn Orra árið 2010 segir mikilvægt að hlúa að aðstandendum þeirra sem taka eigið líf. Á myndinni er Guðrún Jóna ásamt manni sínum Ómari Inga Bragasyni og syni þeirra, Braga. KristinnIngvarsson

„Það er þannig í lífinu að við höfum alltaf val. Hversu ömurlegum aðstæðum sem við lendum í og aðstæðum sem við viljum alls ekki vera í og báðum ekki um. En við höfum valið og ég valdi það að fara þá leið að reyna að styðja þá sem eru í sömu sporum og ég.“

Þetta segir Guðrún Jóna Guðlaugsdóttir sem starfar sem verkefnastjóri lýðheilsusviðs hjá embætti landlæknis og er fagstjóri Sorgarmiðstöðvar. Hún missti sjálf son sinn Orra Ómarsson sem tók eigið líf í janúarmánuði árið 2010 en í dag, 10. september, er alþjóðlegur forvarnardagur sjálfsvíga.

„Það er alltaf von“

„Það er alltaf von og það er alltaf hægt að fá hjálp. Það eru skilaboðin sem við viljum gefa. Sjálfsvíg er aldrei rétta leiðin fyrir neinn,“ sagði Guðrún í samtali við Krístínu Sif og Yngva Eysteins í Ísland vaknar um þetta mikilvæga málefni í gær en hún segir jafnfram afar mikilvægt að hlúa aðstandendum þeirra sem taka eigið líf. Hún er hluti af undirbúningshópi fyrir forvarnardaginn en hópurinn leggur nú áherslu á hugtakið „postvention“, sem er hugtak yfir stuðning við aðstandendur í kjölfar sjálfsvígs.

„Við þurfum að hjálpast að við að búa til einhvers konar vinnulag sem grípur þetta fólk. Og líka umhverfi þess,“ sagði Guðrún. „Við getum alveg gert betur hérna og ætlum að gera það,“ sagði hún.

Ef ein­stak­ling­ar upplifa sjálfs­vígs­hugs­an­ir er hjálparsími Rauða krossins, 1717, opinn allan sólarhringinn. Einnig er netspjall Rauða krossins, 1717.is, opið allan sólarhringinn. Píeta-samtökin veita ókeypis ráðgjöf í síma 552-2218. Á netspjalli á Heilsuvera.is er einnig hægt að ráðfæra sig við hjúkrunarfræðing um næstu skref. Ef þú ert í bráðri hættu hringdu í 112.

Hlustaðu á Guðrúnu Jónu ræða málefnið í Ísland vaknar í spilaranum hér að neðan.

mbl.is
Í loftinu núna
Endalaus tónlist

#taktubetrimyndir