Hjólaleiga í anda bókasafna slær í gegn

Börn og fullorðnir í London geta nú fengið hjól að …
Börn og fullorðnir í London geta nú fengið hjól að láni með því að fylgja svipuðu fyrirkomulagi og á bókasöfnum. Samsett ljósmynd: Unsplash

Hjólreiðar eru ansi vinsælt sport og eru margir sem njóta þess að þeytast frá A til B frjálsir og glaðir á hjólunum sínum. Hins vegar eru aðrir sem hafa ekki náð góðum tökum á því að hjóla og eru ef til vill hræddir að prófa sig áfram.

Ég rakst á virkilega skemmtilega frétt frá London, Englandi, þar sem tómu verslunarrými var umbreytt í eins konar hjólaleigu sem er þó meira í anda bókasafna. Þar er nefnilega hægt að fá ókeypis afnot af hjóli sem er svo skilað innan ákveðins tíma og ekki nóg með það, heldur er einnig boðið upp á grunnkennslu í hjólreiðum og farið yfir hin ýmsu öryggisatriði ásamt því að hjólreiðaeigendur geta fengið viðgerðir á hjólum sér að kostnaðarlausu.

Margir þegar nýtt þjónustuna

Rýmið er í hverfinu Tower Hamlets, sem hefur jafnan glímt við mikla fátækt og verður hjólaleigan uppi í mánuð en nú þegar hafa margir nýtt sér þessa þjónustu. Hugmyndin á bak við þetta skemmtilega framtak er að hvetja fjölbreyttan hóp fólks til þess að þora að hjóla og vonandi finna gleði og sjálfstraust í því. Einnig er vonast til að fleiri sambærileg framtök fari af stað í vetur og að þetta veiti öðrum fyrirtækjum innblástur til að leggja hönd á plóg í samfélaginu og auðvelda fólki aðgengi að þeim öfluga og umhverfisvæna fararmáta sem hjólið getur verið. Frábært!

 Frétt af Positive News.

mbl.is
Í loftinu núna
Endalaus tónlist

#taktubetrimyndir