„Enn einn hringur í kringum sólina“

Dj Dóra Júlía á afmæli í dag, 8. september.
Dj Dóra Júlía á afmæli í dag, 8. september. Skjáskot/Instagram-síða Dóru Júlíu

8. september er mikill hátíðardagur í mínum bókum þar sem það er fæðingardagur minn og nú er ég búin að fara 29 sinnum í kringum sólina. Það er svo magnað að eldast og í hvert skipti sem ég færist nær nýju aldursári gef ég mér tíma til að líta til baka og sjá hvað hefur breyst og hvernig mér líður með tilveruna.

Að mínu mati er mikilvægt að halda upp á slíka áfanga enda gefur það lífinu lit og enn fremur er mikilvægt að skoða hvar maður stendur og velta fyrir sér „hvað hef ég lært nýtt og hvernig líkar mér sú manneskja sem ég er að verða með aldrinum?“

Mín reynsla er að með hverju árinu verð ég ánægðari með mig og það er verðmæt gjöf sem aldurinn gefur mér. Lífið er núna en lífið er líka hinn besti kennari og það er uppbyggilegt og gott að leyfa sér að læra. Þegar ég var yngri gat ég ekki beðið eftir að eldast og eftir hvern afmælisdag var ég alveg að verða árinu eldri.

Það hefur nú breyst eftir að ég komst á þrítugs aldurinn en ég legg mig þó fram við að fara ekki að mynda slæmt samband við það að eldast. Það eru nefnilega forréttindi að fá að vera til og upplifa ár eftir ár og ég ætla mér að halda áfram að gleðjast yfir því að vera ekki að yngjast.

Guði sé lof að ég verði aldrei aftur 28 ára. Það var ótrúlega skemmtilegt, krefjandi, erfitt, frábært og alls konar og kenndi mér svo mikið – en um leið er ég tilbúin að sleppa tökunum á því og takast á við nýtt aldursár.

Lifi afmælis gleðin!

mbl.is

#taktubetrimyndir