Kynnast list og kynna afraksturinn

Grakkarnir - unglingaráð Gerðarsafns.
Grakkarnir - unglingaráð Gerðarsafns. Facebook/

Lífið er ákveðið listform og listina má finna víða. Það er bæði skemmtilegt og mikilvægt að kynna sér það áhugaverða listafólk sem tilheyrir okkar samtíma og vera dugleg að leyfa listinni að hrista upp í hversdagsleikanum.

Sýna afraksturinn 

Undir verndarvæng Kópavogsbæjar og Gerðarsafns hefur hópur af 16-17 ára ungmennum fengið það starf að kynna sér samtímalist og söfn borgarinnar í sumar. Markmiðið með þeirri vinnu var að kanna hvernig söfnin geta orðið aðgengilegri fyrir ungt fólk, sem er hópur sem kannski gleymist oft að höfða til í samhengi listanna.

Í dag, 5. ágúst, ætla ungmennin að sýna afrakstur sumarsins með listsýningu og uppskeruhátíð frá klukkan 17.00-20.00 og fer hún fram í bílakjallaranum fyrir neðan Molann ungmennahús beint á móti Gerðarsafni, Kópavogi. Helgi Grímur Hermannsson og Salvör Gullbrá stýrðu þessum skemmtilega hópi í sumar.

Gefandi sumar

Helgi Grímur segir þetta hafa verið ótrúlega gefandi sumar þar sem krakkarnir hafa sótt fjölmargar smiðjur, bókagerð, skúlptúragerð úr rusli, fatasmiðju, hljóðfærasmiðju, graffsmiðju og svo lengi mætti telja, sem hafa fyllt þau af innblæstri og skýrt hugmyndir þeirra um hverju þau hafi áhuga á í listum. Upp á síðkastið hafa þau verið að þróa sín eigin verk og verða þau til sýnis í dag, fimmtudag, á uppskeruhátíðinni.

Hópurinn nefndi sig Grakkarnir - unglingaráð Gerðarsafns og sýningin ber nafnið Þríhyrningur, ha?

„Það er virkilega gaman að gefa krökkum tækifæri á að kynnast list út frá sínum forsendum og reyna gagngert að vekja áhuga þeirra. Sjálfur veit ég að list getur virst flókin, fræðileg og á einhvern hátt útilokandi og þess vegna er frábært að hafa fengið að kynnast samtímalist í heilt sumar,“ segir Helgi Grímur að lokum.

mbl.is
Í loftinu núna
Endalaus tónlist

#taktubetrimyndir