„Þetta er grunnurinn að því að vera í jafnvægi“

Ein öndunaræfing eða hugleiðsla á dag er ekki nóg til …
Ein öndunaræfing eða hugleiðsla á dag er ekki nóg til að hafa mikil áhrif á líf fólks samkvæmt Vilhjálmi Andra stofnanda Andra Iceland. Til þess að hafa tilætluð áhrif þarf æfingu. Ljósmyndir af andriiceland.com

„Ef öndunin er ekki rétt þá er ekkert rétt,“ segir Vilhjálmur Andri Einarsson, stofnandi og eigandi heilsuþjálfunarstöðvarinnar Andri Iceland. Þar aðstoðar hann fólk við að taka stjórn á eigin öndun en hann segir að það að anda rétt geti gjörbreytt lífi fólks. 

„Andardrátturinn okkar, hann stjórnar öllu. Ef þú færð slæmar fréttir, hvað breytist? Andardrátturinn,“ sagði Vilhjálmur í viðtali við Ísland vaknar í morgun en þar ræddi hann um þessa merkilegu tækni.

Bein tenging inn í taugakerfið

„Öndunin er það eina sem er sjálfrátt og ósjálfrátt. Getur þú ímyndað þér? Þetta er bein tenging inn í taugakerfið. 

Af því að við getum andað okkur inn í algjört „bliss“ og við getum andað okkur í algjört volæði,“ útskýrði Vilhjálmur. „Þetta er sami hringurinn. Röng hugsun breytir andardrættinum en aftur á móti geturðu breytt önduninni ef þú ert búinn að æfa þig. Þetta er grunnurinn að því að vera í jafnvægi. Að vera með öndunina í lagi,“ sagði hann. 

Getum ráðið yfir önduninni

„Þið spáið ekkert í það hvernig þið andið. En hún [öndunin] er líka sjálfráð. Við getum líka ráðið yfir henni. Við getum lært inn á hvernig við öndum af því að það er til aragrúi af öndunaraðferðum. Við erum að tala um öndunartækni,“ sagði Vilhjálmur og bætti við að margar þessara öndunaræfinga hefðu verið stundaðar í árþúsundir. 

Vilhjálmur bendir á að það sé ekki nóg að taka bara eina hugleiðslu eða öndunaræfingu á dag. 

„Flestir eru þannig að við gerum bara einhverja öndunaræfingu eða hugleiðslu eða hvað sem það er. En svo ferðu aftur í vinnuna og aftur í streituástandið. Það er ekki nóg. Þú færð korter eða 20 mínútur. Ekki nema þú lærir að stilla þig af. Það er dagsdagleg öndun sem skiptir máli. Um leið og þú ferð aftur í tölvuna og ferð að pikka og anda grunnt og stutt breytir þú efnafræðinni,“ sagði hann.

„Fólk er ekkert að spá í þetta. Hvort það andi með munninum eða nefinu, hvort það andi grunnt eða djúpt eða hvort það fari ofan í þindarvöðvann, ofan í þindina. Noti allt kerfið okkar. Þetta skiptir máli í íþróttum, þetta skiptir máli í öllu. Þetta skiptir máli með börnin okkar,“ sagði Vilhjálmur Andri.

Hægt er að fræðast meira um öndunarþjálfun Vilhjálms Andra á vefsíðu Andri Iceland.

Hlustaðu á allt viðtalið við Vilhjálm Andra í spilaranum hér að neðan.

 

mbl.is
Í loftinu núna
Endalaus tónlist

#taktubetrimyndir