„Stærsta einstaka lífsgæðastökk ævi minnar“

Tryggvi Hjaltason er Vestmannaeyingur í húð og hár og segir …
Tryggvi Hjaltason er Vestmannaeyingur í húð og hár og segir það vera mesta lífsgæðastökk ævi sinnar að hafa flutt aftur úr borginni með fjölskyldunni til Vestmannaeyja. Ljósmyndir/Óskar Pétur Friðriksson

„Þetta var stærsta einstaka lífsgæðastökk ævi minnar.“

Svona lýsir Tryggvi Hjaltason þeirri ákvörðun að flytja aftur til Vestmannaeyja með fjölskyldu sinni. Hann á þrjú börn með konu sinni Guðnýju Sigurmundsdóttur en þrjú ár eru síðan ungu hjónin, sem bæði eru Eyjafólk, fluttu aftur til Eyja frá Reykjavík. Hann ræddi við Ísland vaknar um þessa ákvörðun þeirra en K100 sendi út í beinni frá Vestmannaeyjum á föstudag.

„Mér finnst 40-50% minna álag að ala upp börn í Eyjum,“ sagði Tryggvi og benti á að elsti strákurinn hans hefði strax getað farið sjálfur á æfingar og fengið mun meira frelsi til að ráða tíma sínum sjálfur.

Guðný og Tryggvi eiga þrjú börn sem alast nú upp …
Guðný og Tryggvi eiga þrjú börn sem alast nú upp í Vestmannaeyjum. Valgarður Gíslason

„Auka 90% af frítíma“

„Svo eru styttri vegalengdir í allt. Ég reiknaði út  en ég er mikill excelmaður  að ég hefði fengið auka 90% af frítíma á daginn á virkum dögum. 11% af vökutímanum mínum,“ sagði Tryggvi. 

„Svo er svo stutt í náttúru. Það var miklu stærra atriði en ég hélt,“ bætti Tryggvi sem starfar hjá CCP og getur unnið að mestu frá heimili sínu. Hann segist oft nýta tímann milli funda til að rölta í tvær mínútur frá húsinu sínu upp í nýja hraunið til að slaka á.

Sagði Tryggvi að það að vera hluti af samfélaginu í Vestmannaeyjum væri eitt það frábærasta við að búa á eyjunni en hann lýsti einni af fyrstu búðarferðunum eftir að fjölskyldan flutti til Eyja.

„Mikið er gott að fá ykkur heim“

„Ég er bara úti í Bónus, ég fór alltaf í Bónus eða Krónuna þegar ég var á leiðinni úr vinnunni í borginni, sem er oft svolítið stressaukandi aðgerð. Þá var fólk bara að koma til manns og segja: „Tryggvi, það er svo gaman að sjá ykkur!“ „Hvernig líður Bjarti stráknum þínum?“ „Mikið er gott að fá ykkur heim.“ Og ekki endilega fólk sem ég þekkti eða var vinir mínir. Meira svona kunningjar sem vissu af manni,“ sagði Tryggvi og bætti við: „Maður finnur svo vel að þau hafa áhuga á manni og velvilja til manns, af því að maður er Vestmannaeyingur og partur af samfélaginu.“

Tryggvi ræddi jafnframt um þjálfun sína hjá Bandaríkjaher og um það hvernig gamalt myndband af honum á Þjóðhátíð hafði næstum af honum starf. 

Sjáðu á allt viðtalið við Tryggva Hjaltason í spilaranum hér að neðan. 

 

mbl.is
Í loftinu núna
Endalaus tónlist

#taktubetrimyndir