Allur heimurinn „með ekka og tár“

Annie Mist heillaði allan heiminn með árangri sínum og einlægni …
Annie Mist heillaði allan heiminn með árangri sínum og einlægni en Evert Víglundsson, eigandi CrossFit Reykjavík og góðvinur Annie var einn af þeim sem grét á meðan hann horfði á hana á heimsleikunum í crossfit. Samsett mynd: Ljósmyndir aðsendar

Evert Víglundsson, eigandi CrossFit Reykjavík, segist hafa hágrátið allan tímann á meðan Annie Mist, góðvinkona hans, var á skjánum á heimsleikunum í crossfit en hann segist vera afar stoltur af árangri íslensku keppendanna á leikunum. Hann ræddi um crossfitleikana í viðtali í morgunþættinum Ísland vaknar í morgun.

Annie Mist hlaut þriðja sæti á leikunum og heillaði heiminn með árangri sínum og einlægni eins og fjallað hefur verið um. 

„Allir íslensku keppendurnir eru í 14. sæti eða ofar í keppni sem allir í heiminum gætu tekið þátt í,“ sagði Evert sem segir að sá árangur sé frábær.

Spurður um þær tilfinningar sem hafi farið um hann þegar Annie Mist keppti sagði hann: „Ég hágrét allan tímann á meðan Annie Mist var á skjánum.“ 

Merkileg saga um þrautagöngu

„Eins og allir voru að tala um og það sem kannski hreif fólk mest er þetta einstaka „comeback“. Það er tæpt ár síðan hún átti barn. Hún gekk í gegnum mjög erfiða fæðingu sem hún deildi með öllum á samfélagsmiðlum, sögunni með það. Svo átti hún bara ofboðslega erfitt með að koma sér til baka vegna þess að líkami hennar var í slæmu ástandi eftir fæðingu. 

Bara skömmu fyrir keppni var hún nánast niðurbrotin og ætlaði ekki að keppa, því henni fannst hún ekki nógu góð eða komin nógu langt til að vera þarna.

Þetta er ofboðslega merkileg saga um þrautagöngu og að halda áfram og sigrast á sjálfum sér,“ sagði Evert og bætti við að hann hefði farið að gráta strax á fyrsta degi þegar Annie Mist brosti sínu einkennandi brosi til áhorfenda.

„Þarna var gamla Annie. Alltaf brosandi og heillaði alltaf alla með sér í öllum keppnum. Það er ein ástæðan fyrir því að hún er bara einn dáðasti íþróttamaður í heiminum,“ sagði hann. 

„Það stóð allur salurinn og örugglega allur heimurinn heima í stofu, allir með ekka og tár að hlusta á hana.“ 

 Hlustaðu á viðtalið við Evert í Ísland vaknar í spilaranum hér að neðan. 

mbl.is

#taktubetrimyndir