90 ára með prinsessuþema

Ekki amalegt að fá prinsessuþema á 90 ára afmælinu.
Ekki amalegt að fá prinsessuþema á 90 ára afmælinu. Skjáskot af facebook. Melissa Denny Photography

Maður er aldrei of gamall til að fagna afmælinu sínu með stæl. 90 ára gömul amma veit allt um það en nú á dögunum fagnaði hún níu áratugum á jörðinni með almennilegu prinsessupartíi. Barnabarn hennar, kona að nafni Stephanie Perkins, skipulagði partíið fyrir ömmu sína og fól það í sér að finna almennilegt tútú-pils, bóka frábæran ljósmyndara og velja dásamlegar veitingar.

Gátu loksins eytt tíma með ömmu 

Síðastliðið rúmt ár hefur Perkins og fjölskylda ekki getað eytt miklum tíma með ömmunni vegna faraldursins og þótti þeim því mikilvægt að geta fagnað þessum stóra áfanga með henni almennilega. Amman fékk virkilega skemmtilegan bol að gjöf sem á stendur: „Það tók mig 90 ár að líta svona vel út“ ásamt því að fá kórónu og prinsessustól eins og alvöru konungsfjölskyldumeðlimur. Perkins og móðir hennar fengu ljósmyndarann Melissu Danny til að taka myndir í veislunni og má sjá að 90 ára afmælisprinsessan var algjörlega í skýjunum.

Partíið var mjög fámennt en góðmennt og daginn eftir skipulögðu þær bílapartí þar sem vinir og vandamenn keyrðu fram hjá húsi ömmunnar, flautuðu og óskuðu henni til hamingju með daginn út um gluggann. Perkins segir að afmælisdagurinn hefði ekki getað farið betur og var svo glöð hvað amma hennar naut þess mikið að halda upp á hann. Svo krúttlegt og skemmtilegt og ef ég verð þess heiðurs aðnjótandi að fagna 90 ára afmæli ætla ég svo sannarlega að halda veislu með prinsessuþema!

Frétt af Upworthy.

mbl.is

#taktubetrimyndir