Veit ekki hve lengi hann fær að lifa

Nóg er fyrir stafni hjá Jóhannesi Hauki stórleikara en hann …
Nóg er fyrir stafni hjá Jóhannesi Hauki stórleikara en hann er nú við tökur á annarri seríu af Vikings: Valhalla á Írlandi þar sem hann leikur Ólaf digra. Mynd/Haraldur Jónasson-Hari

Jóhannes Haukur leikari er nú staddur á Írlandi við tökur á annarri seríu af netflixseríunni Vikings: Valhalla en fyrsta sería af þáttunum hefur ekki enn verið frumsýnd. Í þáttunum fer Jóhannes með hlutverk Ólafs Haraldssonar, einnig kallaður Ólafur digri, sem er ein aðalpersóna þáttanna, sem fjalla meðal annars um Leif Eiríksson.

Jóhannes ræddi um tökurnar í morgunþættinum Ísland vaknar en hann á von á að þættirnir verði frumsýndir í vetur en nákvæm tímasetning hefur ekki verið tilkynnt.

Eru þættirnir eins konar framhald af þáttunum Vikings en gerast um hundrað árum síðar. 

„Þar af leiðandi eru allir hinir leikararnir dauðir og þetta er þá fyrsta sería af svona „rebútaðri“ seríu af Vikings,“ útskýrði Jóhannes sem segist sjálfur vera mikill aðdáandi Vikings-þáttanna.

Jóhannes segist ekki hafa hugmynd um það hversu lengi Ólafur digri muni lifa af í þáttunum en hann bendir á að framleiðendur Vikings-þáttanna taki sér svolítið listrænt leyfi í sambandi við söguna.

„Ég er að safna góðum lista af fólki sem þarf að hefna sín á mér. Ég er svona að velta því fyrir mér hvenær þeir ætla að drepa mig því það eru allavega sex, sjö manns sem eiga harma að hefna þegar við erum komin í aðra seríu,“ sagði Jóhannes.

Taka sér listrænt leyfi með söguna

„Ég veit ekki alveg hvenær þeir ætla að ljúka göngu Ólafs digra í þessum þáttum því maður getur ekki alveg stuðst við sögulegar skýringar af því að þeir [framleiðendur] taka sér svolítið listrænt leyfi með það. Þess vegna veit maður ekki alveg við hverju er að búast,“ sagði Jóhannes. „Þeir taka sér sitt leyfi. Mér fannst þetta svolítið skemmtilegt við Vikings-þættina. Ég held að áhorfandinn búist ekki lengur við að það sé söguleg nákvæmni, eins og í the Crown og öðrum þáttum,“ sagði hann og bætir við að sjálfur leiti hann á Google til að komast að því hvað raunverulega gerðist eftir að hann horfir á slíka þætti.

Jóhannes staðfestir að serían verði í heild sinni aðeins tekin upp á Írlandi og munu tökur því ekki fara fram á Íslandi. 

„Það yrði rosalega erfitt með heimsfaraldurinn. Þetta er allt saman tekið bara á Írlandi. Þeir eru með stúdíó sem þeir eru búnir að byggja upp síðastliðin sex, sjö ár.“

Vill trúa að Pearce sé „sjúkur“ í sig

Jóhannes var spurður um það í gamni hvort hann væri í öllum verkefnum sem stórleikarinn Guy Pearce tæki þátt í, en væntanlega stórmyndin Zone 414 er þriðja verkefnið sem Jóhannes vinnur með Pearce.

„Einhver myndi kannski segja að þetta væri bara tilviljun en ég vil meina að hann krefjist þess að fá mig. Hann sé sjúkur í mig,“ sagði Jóhannes kíminn og bætti við: „Ég ætla bara að kjósa að skilja það þannig.“ 

Sagði hann að Pearce hefði ekki enn verið fenginn til að taka þátt í Vikings.

„En kannski, hver veit? Kannski ná þeir að fá hann yfir í Vikings líka,“ sagði Jóhannes sem býst við að vera á Írlandi fram í október með hugsanlegri heimsókn til Íslands ef Covid leyfir. 

Hægt er að hlusta á viðtalið við Jóhannes Hauk í heild sinni í spilaranum hér að neðan.

mbl.is
Í loftinu núna
Endalaus tónlist

#taktubetrimyndir