Láta ekki ræna af sér gleðinni

Íris Róbertsdóttir, bæjarstjóri í Vestmannaeyjum, segir Eyjamenn ætla halda í …
Íris Róbertsdóttir, bæjarstjóri í Vestmannaeyjum, segir Eyjamenn ætla halda í gleðina um helgina. Ljósmynd/Óskar Pétur Friðriksson

Íris Róbertsdóttir, bæjarstjóri Vestmannaeyja segir Eyjamenn ekki hafa tapað gleðinni þrátt fyrir að Þjóðhátíð hafi verið frestað í annað sinn vegna uppgangs Delta-afbrigðis kórónuveirunnar en hún mætti með æðruleysisbænina um hálsinn í morgunþáttinn Ísland vaknar á K100 sem var sendur út í beinni frá Vestmannaeyjum í dag. 

Æðruleysisbænin um hálsinn

„Eftir vonbrigðin síðasta föstudag er ekkert annað að gera en að setja æðruleysisbænina um hálsinn en það breytir því ekki að við erum alveg svekkt eins og aðrir landsmenn yfir að við heldum þetta ekki út í meira en mánuð þar til allt var breytt aftur,“ sagði Íris. 

Benti hún á að frestunin hafi sérstök áhrif á börn á eyjunni sem alist upp við gleðina sem fylgi Þjóðhátíð og hafi mörg börn orðið fyrir miklum vonbrigðum enda er helgin einstök fjölskylduhátíð fyrir Eyjamenn.

„Ef þú hefur ekki upplifað Þjóðhátíð með Vestmannaeyingum þá hefur þú ekki upplifað Þjóðhátíð eins og við sjáum hana,“ sagði Íris sem segir að Eyjamönnum sárni stundum þegar umræðan um Þjóðhátíð er neikvæð.

Íris var í beinni í Ísland vaknar á K100 frá …
Íris var í beinni í Ísland vaknar á K100 frá Eldheimum í Vestmannaeyjum. Ljósmynd/K100

Gleði og kátína þrátt fyrir allt

Hún segir sumarið þó hafa verið frábært í Vestmannaeyjum en Goslokahátíðin var að hennar sögn æðisleg og takmarkalaus.

Aðspurð sagðist Íris ekki eiga von á því að hægt verði að halda þriggja daga Þjóðhátíð en hún á von á að hægt verði að halda hana í einhverri mynd í lok ágúst.

Enda ef þið hafið keyrt niður í dag þá er allt tilbúið,“ sagði Íris og átti við Dalinn. „Öll ljós kveikt en enginn er heima.“

Dalurinn er tómlegur en stórfenglegur. „Öll ljós kveikt og enginn …
Dalurinn er tómlegur en stórfenglegur. „Öll ljós kveikt og enginn heima,“ eins og Íris lýsti því svo skemmtilega í viðtali við Ísland vaknar.

Þrátt fyrir allt staðfesti Íris að það ríki mikil gleði og kátína í bænum.

„Það er alltaf gaman. Við erum ekki þekkt fyrir að gefast upp. Við erum frekar þekkt fyrir það að þar sem Eyjamenn eru þar er gaman. Við reynum bara að hafa gaman um helgina,“ sagði Íris og bendir á að takmarkanir séu töluvert opnari en þær voru í fyrra en nú megi þó 200 manns koma saman.

„En við erum alltaf með þetta bak við eyrað að við erum inni í þessum faraldri og við þurfum öll að passa okkur og sinna því en það þýðir ekki það að við þurfum að láta ræna af okkur gleðinni. Og við ætlum svo sannarlega að gera það um helgina. Við ætlum að hafa gaman,“ sagði Íris.

Útlandastemning í Eyjum

Íris tók undir það að hvetja ætti fólk til að heimsækja Vestmannaeyjar enda hafi eyjarnar ótrúlega margt að bjóða. 

„Það er það sem þú kemst því næst því að fara til útlanda. Það er annaðhvort flug með Icelandair eða Herjólfur og þú þarft ekki að fara í sóttkví. Það er ekki próf,“ sagði Íris. „Við getum búið til þessa útlandastemningu.

Svo erum við með rosa flotta flóru veitingastaða, frábæra afþreyingu, einn fallegasta golfvöll í heimi, þannig að það er ótrúlega margt sem hægt er að gera,“ sagði hún.

Horfðu á allt viðtalið við Írisi í spilaranum hér að neðan.

 

mbl.is
Í loftinu núna
Endalaus tónlist

#taktubetrimyndir