Krakkar sjúkir í hrognate

Þóra og Kristín Sif eiga erfitt með að skilja áhuga …
Þóra og Kristín Sif eiga erfitt með að skilja áhuga krakka á Boba-tei Samsett mynd: Eggert Jóh/Unsplash

Kristín Sif hjá Ísland vaknar á K100 og Þóra á matarvef mbl.is deildu upplifun sinni af svokölluðu Boba-tei en þær lentu báðar í því að börn þeirra drógu þær í verslun sem selur slíkt te á Íslandi. Virðist teið  vera að tröllríða öllu hjá krökkum um þessar mundir en Boba-te myndbönd eru sérstaklega vinsæl á samfélagsmiðlinum TikTok. Kristín og Þóra ræddu um þetta í morgunþættinum Ísland vaknar. 

„Það er svo áhugavert þegar maður kemst að því að dóttir manns býr í öðrum heimi,“ sagði Þóra eftir að Kristín minntist á áhuga dóttur sinnar á Boba-teinu en um er að ræða kínverskt te með litlum ætum kúlum sem fæst með ýmsum bragðtegundum en kúlurnar minna dálítið á hrogn í útliti. 

„Dóttir mín drekkur ekki te og borðar ekki hrogn en þarna allt í einu ákvað hún að fá sér te með hrognum úti í,“ sagði Þóra sem kallar Boba-teið „hrognate“.

Horfði á „hrognin“ leysast upp

Lýsti Þóra því hvernig hún var dregin í te-verslunina og sagði að afgreiðslufólkið hefði greinilega verið vant því að fá konur eins og hana með börnum sínum og hafi hjálpað mæðgunum að velja sér te.

„Allavega löbbuðum við út með Boba-teið, eða hrognateið, eins og ég kalla þetta,“ sagði Þóra.

„Svo horfði ég á Boba-teið leysast upp – eða „hrognin“, þar sem hún [dóttirin] hafði þetta til sýnis inni í herberginu sínu á frekar „svölum“ stað. Við höfum ekki farið aftur en þetta er „thing“,“ sagði Þóra. 

Leið eins og hún væri í „öðrum heimi“

„Ég er svo glöð að þú upplifðir nákvæmlega það sama og ég. Því mér leið eins og ég væri í öðrum heimi,“ sagði Kristín Sif.

Þóra bætti við að hún vildi segja við aðrar mæður í sömu stöðu að fara óhræddar með krakkana að smakka teið góða. „Þær [afgreiðslukonurnar] hafa fullan skilning á þessu. Leyfið þessum krökkum að smakka þetta hrognate og prófið bara líka. Heimurinn manns er alltaf að stækka,“ sagði hún.

Hér má sjá myndband af TikTok þar sem Boba-teið er í forgrunni.  

Hlustaðu á allt spjallið við Þóru í spilaranum hér að neðan.

 

mbl.is

#taktubetrimyndir