Hita upp fyrir Helga Björns og gefa út nýtt lag

Segja má að Skítamórall hiti upp fyrir Helga annað kvöld.
Segja má að Skítamórall hiti upp fyrir Helga annað kvöld. Ljósmynd/Mummi Lú

Hljómsveitin Skítamórall er heldur betur búin að ræsa vélarnar en á dögunum kom út nýja lagið „Innan í mér“ með sveitinni en upptaka frá Hörputónleikum Skítamórals í fyrra verður jafnframt sýnd á Sjónvarpi símans annað kvöld, kl. 19.10. 

„Það eina sem manni dettur í hug þegar maður heyrir lagið er að meðlimir sveitarinnar hafi fengið of stóran skammt af Pfizer,“ sagði talsmaður hljómsveitarinnar þegar lagið kom út en það er eftir hirðskáld Skítamórals, Einar Bárðarson, og það er tekið upp af Vigni Snæ Vigfússyni og masterað af Adda 800. 

Keyra upp stemninguna

Upptakan af tónleikunum annað kvöld verður bæði upphitun fyrir streymið með Helga Björns sem landsmenn fá að fylgjast með á morgun en einnig til að keyra upp stemningu fyrir aðra væntanlega tónleika Skítamórals. 

„Já, það má segja að Skítamórall sé að hita upp fyrir streymið hjá Helga Björns,“ segir talsmaður hljómsveitarinnar í fréttatilkynningu.

Fylgja væntanlegir tónleikar eftir Hörputónleikunum frá því í fyrra þegar hljómsveitin fagnaði 30 ára starfsafmæli, en tónleikarnir verða í haust, föstudagskvöldið 29. október. Miðasala á þá hófst í dag á tix.is.

 Hægt er að hlusta á lagið Innan í mér hér að neðan.

mbl.is
Í loftinu núna
Endalaus tónlist

#taktubetrimyndir