Eitthvað „stórfenglegt og hræðilegt“ þyrfti að gerast til að ekkert yrði haldið

Níels Thibaud Girerd er einn af tengdasonum Vestmannaeyja og fer …
Níels Thibaud Girerd er einn af tengdasonum Vestmannaeyja og fer alltaf til Eyja um verslunarmannahelgina. Kristinn Magnúsosn,Kristinn Magnússon

Leikarinn Níels Thibaud Girerd eða Nilli eins og hann er jafnan kallaður nýtur nú lífsins í Vestmannaeyjum en hann staðfestir að hann sé „einn af“ tengdasonum Vestmannaeyja en tengdafjölskylda hans er Eyjafólk. 

Segir hann að eitthvað „stórfenglegt og hræðilegt“ þurfi að gerast til að fjölskyldan gleðjist ekki saman í Vestmannaeyjum um verslunarmannahelgina. Hann ræddi við Ísland vaknar á K100 í morgun í beinni frá Eldheimum í Vestmannaeyjum.

Nilli var gestur Ísland vaknar í beinni frá Eyjum í …
Nilli var gestur Ísland vaknar í beinni frá Eyjum í morgun.

Kemur alltaf til Eyja á Þjóðhátíð

Nilli er hingað til meðal annars búinn að hafa það huggulegt með rauðvín í Dalnum, fara í setningarkaffi með tengdafjölskyldunni og spila með lúðrasveit Vestmannaeyja sem hann er partur af en þetta er í fjórða sinn sem hann eyðir verslunarmannahelginni í Eyjum.

„Það verður eitthvað stórfenglegt að gerast til að þetta verði ekki haldið,“ sagði Nilli.

„Við komum alltaf hérna yfir á þessum merkisdegi og þessari árshátíð á þessari merkilegu helgi.“ 

Öðruvísi með heimamönnum

Segir hann að það sé allt öðruvísi að upplifa Þjóðhátíð með heimamönnum en að vera gestur.

„Það er algjörlega rétt. Þetta er rosa „intensive“ hátíð fyrir aðkomumenn. Rosalega krefjandi. Ert líka endalaust úti og alls konar og kannski fátt um sturtur,“ sagði Nilli.

„En þegar maður er hérna og sérstaklega með heimamönnum sem taka svona vel á móti manni og maður fær að finna fyrir gestrisni þeirra þá er þetta bara einstakt,“ sagði hann og bætti við að menningin í hvítu tjöldunum hefði komið sér mest á óvart.

„Þegar maður fór að fara inn í þau og bankaði á þau og hvað maður var velkominn – en líka óvelkominn stundum. Maður fer ekkert inn hvar sem er,“ sagði Nilli og hló.

Horfðu á allt spjallið við Nilla í spilaranum hér að neðan.

 

mbl.is

#taktubetrimyndir