Sorglegt að lónið sé horfið

Helga Kristín gekk yfir Skeiðarárjökul á dögunum og finnst afar …
Helga Kristín gekk yfir Skeiðarárjökul á dögunum og finnst afar sorglegt að sjá hvað breytingar á loftslagi hafa haft mikil áhrif á svæðið. Ljósmynd/Helga Kristín Torfadóttir

Jarð- og eldfjallafræðingurinn Helga Kristín Torfadóttir heyrði í Ísland vaknar á K100 í morgun en hún nýkomin úr göngu yfir Skeiðarárjökul með hóp af krökkum sem sækja námskeiðið „Loftslagsleiðtoginn“. Segir hún mjög sorglegt að sjá hvað breytingar á loftslagi hafa unnið mikið á svæðinu og segir Grænalón alveg horfið.

Gerðist „mjög snöggt“

„Það er mjög sorglegt að labba þarna og maður er bara að labba á botni lónsins sem hvarf bara fyrir nokkrum árum. 

Það ætti að vera risastórt lón þarna. Það er svolítið erfitt að ímynda sér það. Þetta er búið að gerast svo snöggt. Þetta er bara farið,“ sagði Helga í Ísland vaknar í morgun.

„Vegna hlýnandi loftslags hefur hið mikilfenglega Grænalón horfið á örfáum árum. Það er vegna þynningar Skeiðarárjökuls sem var eins og veggur upp að lóninu og studdi við það eins og hálfgerð stífla,“ bætti Helga við í samtali við blaðamann K100.is. 

„Jökullinn hefur hopað frá fjallshlíðunum umhverfis þar sem lónið var, þannig að vatnið gat lekið meðfram jöklinum sem síðan tappaði lónið af,“ útskýrði Helga.

Hér fyrir ofan má sjá það litla sem er eftir …
Hér fyrir ofan má sjá það litla sem er eftir af Grænalóni við Skeiðarárjökul. Myndirnar eru teknar á göngu á dögunum yfir jökulinn en gangan er hluti af prógrammi námskeiðsins Loftslagsleiðtoginn. Námskeiðið er stjórnað af Hafdísi Hönnu Ægisdóttur, Salóme Hallfreðsdóttur og Vilborgu Örnu Gissurardóttur. Ljósmynd/Helga Kristín Torfadóttir
Hér sést Grænalón á mynd frá því í júlí 2008.
Hér sést Grænalón á mynd frá því í júlí 2008. Ragnar Axelsson

Helga staðfestir aðspurð að það hafi verið „mjög mikið stuð“ upp á síðkastið að starfa sem jarð- og eldfjallafræðingur og fá að fylgjast með eldgosi við Fagradalsfjall. 

Tímafrekt að fá eldgos

„En þetta er líka tímafrekt að fá svona eldgos af því að maður er að gera annað á meðan. Maður situr ekki bara og bíður eftir eldgosi. Það eru alltaf önnur verkefni. En þá þarf maður bara að læra að „múltítaska“ og skipuleggja sig vel,“ sagði Helga og bætti við að hún væri að einblína á doktorsverkefni sitt þessa dagana. „Svo kemur eldgosið aðeins til hliðar. [Ég] reyni að halda á mörgum boltum í einu,“ sagði hún.

Hægt er að fylgjast með ferðum Helgu á instagram en Helga er með yfir 20 þúsund fylgjendur á miðlinum og hefur meðal annars deilt miklu efni frá eldgosinu við Fagradalsfjall.

Hlustaðu á allt viðtal Ísland vaknar við Helgu í spilaranum hér að neðan.

mbl.is
Í loftinu núna
Endalaus tónlist

#taktubetrimyndir