Mikið breyst síðan hann var handtekinn á bretti

Steinar Fjeldsted hjólabrettakennari og einn af stofnendum Hjólabrettaskóla Reykjavíkur segir …
Steinar Fjeldsted hjólabrettakennari og einn af stofnendum Hjólabrettaskóla Reykjavíkur segir að margt hafi blessunarlega breyst síðan hann var ungur og stimplaður vandræðagemsi fyrir að vera á hjólabretti. Ljósmynd/Hjólabrettaskóli Reykjavíkur

Steinar Fjeldsted, tónlistarmaður og einn af stofnendum Hjólabrettaskóla Reykjavíkur, segir það gríðarlega mikilvægt fyrir hjólabrettasportið að fá það inn á Ólympíuleikana. Segir hann að stefnan sé nú sannarlega tekin á að senda Íslending á Ólympíuleikana en til þess þurfi góða aðstöðu og meiri meðbyr.

Hjólabrettaskóli Reykjavíkur hefur verið starfandi í um sjö ár en gríðarlega margir sækja námskeið í skólanum að sögn Steinars, aðallega börn, en einnig fólk á öllum aldri. Í viðtali við Ísland vaknar í vikunni sagði hann að elsti nemandinn hafi verið 70 ára þegar hann sótti námskeið hjá skólanum.

Kátir krakkar sækja námskeið í íþróttafélaginu Hjólabrettaskóla Reykjavíkur en Steinar …
Kátir krakkar sækja námskeið í íþróttafélaginu Hjólabrettaskóla Reykjavíkur en Steinar Fjeldsted, hjólabrettakennari og einn af stofnendum skólans, kennir krökkunum hjólabrettasportið.

Steinar benti þó á að ekki séu allir, „skeitarar“, sammála um hversu gott það sé fyrir íþróttina að vera nú orðin hluti af Ólympíuleikunum.

„Það eru skiptar skoðanir á því að vera á Ólympíuleikunum, vegna þess að sumir vilja halda í lífsstílinn. Að vera á götunni. Svona jaðarfílinginn,“ útskýrði Steinar.

Mun minna um fordóma í dag

„Samt sem áður er þetta rosalega gott fyrir hjólabrettið. Það fær þessa viðurkenningu sem mér finnst hjólabrettið eiga skilið,“ sagði hann. Steinar sagði að fordómar gagnvart hjólabrettasportinu og „skeiturum“ hafi verið miklir á þeim tíma sem hann byrjaði á hjólabretti á síðasta áratug 20. aldar.

Kennsla á hjólabretti fer hér fram undir berum himni en …
Kennsla á hjólabretti fer hér fram undir berum himni en sprittið er að sjálfsögðu ekki langt undan á æfingum um þessar mundir.

„Ég var bara handtekinn niðri í bæ,“ sagði hann.

„Svo var bara sagt að ég væri að keyra niður gamlar konur, sem ég var ekki að gera. Og stela, sem ég var ekki að gera. Ég var stimplaður vandræðagemsi. En fæstir af okkur voru vandræðagemsar,“ sagði Steinar sem benti á að andrúmsloftið hafi sem betur fer breyst til muna síðan þá og að mun minna sé um fordóma í garð hjólabrettafólks.

13 ára ólympíumeistari

Hann segir alveg frábært að geta fylgst með keppendum á Ólympíuleikunum og bendir á, að af stelpunum þremur sem keppa séu tvær þrettán ára. Sú þriðja er sextán ára. Momiji Nishiya, þrettán ára, varð á mánudag yngsti ólympíumeistari sögunnar þegar hún sigraði í keppni á hjólabrettum.

Sagði Steinar að markmiðið væri að senda Íslending á Ólympíuleikana, en svo það verði að veruleika þurfi góða aðstöðu innanhúss, enda sé erfitt að æfa sig úti allan ársins hring hér á landi. Einnig þurfi góðan meðbyr, en Steinar benti á að í nágrannalöndum okkar, Svíþjóð og Danmörku, væri verið að setja mikið fjármagn í hjólabrettasportið, þar sem það sé jafnvel komið inn í skólakerfið.

„Ef innanhússaðstaðan er góð þá getum við sent keppanda á Ólympíuleikana. [Við] stefnum að því að senda „hjólabrettaskeiter“ á Ólympíuleikana,“ sagði hann.

Hjólabrettaskóli Reykjavíkur er löggilt íþróttafélag sem er í eigu Steinars, Sigrúnar Guðjohnsen, Freymars Þorbergssonar, Óðins Valdimarssonar og Sigurðar Pálmasonar. Hægt er að hafa samband við félagið á Facebook og á hjolabrettaskoli@gmail.com.

Hlusta má á viðtalið við Steinar í heild sinni í spilaranum hér að neðan.

 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.990 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »

Í loftinu núna
Endalaus tónlist

#taktubetrimyndir