Fyrsta pysjan fundin: „Þungt miðað við fyrstu pysju“

Pysjurnar eru flestar frelsinu fegnar eftir að þeim er bjargað …
Pysjurnar eru flestar frelsinu fegnar eftir að þeim er bjargað en þær fá yfirleitt að gista í pappakassa í mannheimum í eina nótt áður en þeim er sleppt í sjóinn.

Lundapysjutímabilið er nú formlega hafið en fyrsta lundapysjan fannst í byggð í morgun.

Gígja Óskarsdóttir sem hefur lengi komið að umsjón pysjueftirlitsins svokallaða, staðfestir þetta en segist búast við að þetta verði frábært pysjuár en pysjueftirlitið verður eingöngu rafrænt í ár líkt og í fyrra. Var pysjan sem fannst 356 grömm “sem er mjög þungt miðað við fyrstu pysju,“ segir Gígja.

Nú verður hins vegar í fyrsta skipti reynt að fækka þeim pysjum, með skipulögðum hætti, sem lenda á bryggjunni og eiga því meiri hættu á að verða olíublautar. Lífslíkur pysja sem lenda í höfninni og verða olíublautar eru því miður ekki miklar og þurfa þær því oftast hreinsun og umönnun í einhvern tíma.

Verður þetta gert með því að minnka ljósmagn við höfnina og lýsa upp svæði ofar í bænum en birtan er það sem dregur pysjurnar inn í bæinn.

Algjörlega áttavilltar

„Það er talað um um það bil eitt prósent pysja sem kemur í bæinn og þær halda að ljósin frá bænum sé tunglið að endurspeglast í sjónum. Svo lenda þær og eru algjörlega áttavilltar,“ segir Gígja í samtali við Morgunblaðið og K100.is.

Gígja Óskarsdóttir hjá pysjueftirlitinu segir að þetta verði í fyrsta …
Gígja Óskarsdóttir hjá pysjueftirlitinu segir að þetta verði í fyrsta sinn sem reynt verði að fækka olíublautum pysjum með skipulögðum hætti.

„Þá komum við til sögunnar. Pysjurnar lenda yfirleitt þegar það fer að dimma því þá sjá þær náttúrulega ljósin betur,“ segir Gígja.

Segir hún að margt aðkomufólk leggi leið sína til Vestmannaeyja í lok sumars til að leita að og bjarga pysjum þó að margir séu aðkomumennirnir með tengsl við eyjarnar.

„Þetta er rosa mikið einhverjir sem hafa tengingar við Eyjar. Við sjáum fullt af brottfluttum Eyjamönnum koma og afkomendum þeirra en svo er fullt af fólki sem á enga tengingu,“ segir Gígja og bætir við að þegar erlendir ferðamenn voru sem mest á landinu hafi pysjueftirlitið átt fullt í fangi með að fara í viðtöl hjá stórum erlendum fréttamiðlum um pysjutímabilið, svo sem BBC og ABC.

Vasaljós og fullt af kössum

„Fullorðnir verða aftur börn. Þeim finnst þetta alveg jafn skemmtilegt og börnunum,“ segir Gígja. Gígja segir mikilvægt fyrir þá sem ætli sér að leggja leið sína til Vestmannaeyja til að taka þátt í að bjarga pysjunum að hafa með sér rétta „búnaðinn“, sem þó er alls ekki flókinn.

Bæði fullorðnir og börn hafa gaman af pysjutímabilinu en margir …
Bæði fullorðnir og börn hafa gaman af pysjutímabilinu en margir aðkomumenn leggja leið sína til Vestmannaeyja í lok sumars til að taka þátt. Fyrir þá sem vilja finna og bjarga pysjum er gott að hafa vasaljós og nóg að pappakössum.

„Það er rosa gott að fara út með vasaljós og kassa og því fleiri kassar því betra. Það er langbest að vera með eina pysju í hverjum kassa. Það virkar náttúrulega ekki alltaf en við reynum að ganga út frá því,“ segir Gígja.

„Svo virkar þetta bara þannig að þú keyrir eða labbar um bæinn og leitar og það þarf að leita vel af því að pysjurnar fela sig. Þær eru kannski bara á miðri götu þegar þær eru nýlentar en svo leita þær skjóls,“ segir Gígja og bætir við að það geti til dæmis verið gott að fara niður á bryggju og líta undir kör.

„Þetta er ótrúlega gaman og það er alveg smá vertíðarfílingur yfir þessu,“ segir hún.

Gígja staðfesti að margir væru spenntir yfir komandi pysjutímabili enda líti tímabilið vel út. Segir hún marga jafnframt hafa glaðst við að heyra að tímabilið væri að hefjast og að fólk hafi haft orð á því að það væri svo gaman að fá „loksins“ jákvæðar fréttir nú þegar svo mikið er um neikvæðar fréttir af heimsfaraldri. Býst Gígja við að tímabilið byrji rólega en að hápunktur tímabilsins verði um miðjan ágúst.

Pysjutímabilið í Vestmannaeyjum er afar ævintýralegt fyrir börn en hér …
Pysjutímabilið í Vestmannaeyjum er afar ævintýralegt fyrir börn en hér sést dóttir Gígju, Eva Laufey, halda á pysju áður en henni var sleppt.

Þar sem varpið virðist hafa gengið vel hjá lundanum í sumar og hann hefur náð að bera mikið af síli í pysjuna er von á því að tímabilið byrji svona snemma og að pysjurnar sem lendi í bænum verði vel á sig komnar og tilbúnar að lifa sjálfstæðu lífi á sjónum.

„Þetta byrjar rólega í svona tvær vikur og svo kemur hápunkturinn og svo minnkar þetta aftur. Þetta eru svona fimm til sex vikur,“ segir hún.

„Það er búist við þungum og flottum pysjum og í miklu magni. Við erum að búast við mjög góðu pysjuári,“ segir Gígja.

Rafrænt pysjueftirlit

Pysjueftirlitið, sem fram til 2020 hefur séð um að telja og mæla pysjur sem almenningur bjargar og fer með til eftirlitsins, áður en þeim er sleppt út í sjó, mun, eins og áður kom fram, fara fram rafrænt eins og í fyrra vegna ástandsins í samfélaginu. Mun almenningur þá geta skráð pysjurnar sjálfur inn í kerfi á vefsíðunni lundi.is. Þar verður jafnframt hægt að skrá þyngd pysjanna og setja mynd með.

„Svo verður tekið á móti slösuðum og olíublautum fuglum á Sea Life Trust,“ segir Gígja sem segist vona að aðgerðirnar varðandi birtuna í bænum muni verða til þess að minna verði um olíublauta fugla.

Fréttin hefur verið uppfærð.

mbl.is

#taktubetrimyndir