Fagna því að vera á lausu

Kristín Hulda Gísladóttir hélt einhleyputeiti um daginn þar sem einhleypar …
Kristín Hulda Gísladóttir hélt einhleyputeiti um daginn þar sem einhleypar konur fögnuðu því að vera einar og sáttar með lífið. Ljósmynd/Aðsend

Kristín Hulda Gísladóttir er mikill lífskúnstner sem hefur gaman af því að fagna lífinu en undanfarin þrjú ár hefur hún haldið svokölluð einhleypupartí, þar sem tilgangurinn er að fagna þeirri frábæru hjúskaparstöðu að vera ein. Ég fékk að spjalla aðeins við þessa ungu, kláru og skemmtilegu konu um hvernig einhleypupartíið varð að veruleika.

„Hugmyndin að því að halda partí fyrir allar einhleypu vinkonur mínar kviknaði fyrir þremur árum. Þá var ég komin á þann aldur að helmingurinn af vinkonum mínum var í samböndum, farinn að huga að barneignum og íbúðarkaupum, en hinn helmingurinn var á lausu, ennþá að leika sér og alls ekki með hugann við slíkt,“ segir Kristín Hulda og bætir við: „Á þessum aldri er líka komin smá pressa frá samfélaginu og fjölskyldumeðlimum um að fara nú að finna sér mann og gera alla þessa áðurnefndu týpísku hluti.

Synd að fagna því ekki meira að vera ung og sátt

Ég var á lausu og fannst það snilld og fannst algjör synd að því væri ekki fagnað meira að vera ung, sjálfri sér nóg og fullkomlega sátt með hjúskaparstöðu sína! Ákvað að fagna því bara sjálf, sem smá mótvægi við það hvernig við höldum samfélagslega aðallega upp á alls kyns viðburði og áfanga sem fylgja gjarnan samböndum.“

Kristín segir það hafa verið lítið mál að hóa saman skemmtilegum hópi af einhleypum.

„Ég bauð öllum einhleypum vinkonum mínum í partí og hvatti þær til að bjóða allar einni af sínum einhleypu vinkonum, enda þekkir maður aldrei of margar einhleypar konur! Síðan þá hefur þetta verið árlegur viðburður og er alltaf ótrúlega skemmtilegur.“

Í partíinu er alltaf dagskrá sem er sérsniðin að einhleypum og segir Kristín frá því að á síðustu árum hafi meðal annars verið kynlífstækjakynning, upplestur á lélegum „tinder bios“, þagnarstund fyrir vinkonur sem eru nýlega á föstu, keppni í að finna klisjukennda tinderprófíla og fleira.

Kristín Hulda hóar saman einhleypum konum árlega og saman fagna …
Kristín Hulda hóar saman einhleypum konum árlega og saman fagna þær hjúskaparstöðu sinni meðal annars með því að skála. Unsplash

„Þarna fá einhleypu vinkonur mínar eitt kvöld á ári þar sem engin fer snemma heim því makinn sækir, engir vandræðalegir makar sem fengu að mæta með, ekkert tal um sameiginleg íbúðarkaup eða fyrirhugaðar barneignir og engin sem segir alltaf „við“ en aldrei „ég“.

Hvetur fleiti til að halda einhleyputeiti

Bara einhleypar konur að skemmta sér, deila tindersögum, drekka, hlæja, dansa og hafa gaman,“ segir snillingurinn Kristín Hulda og hvetur fleiri til að halda sambærileg partí.

„Auðvitað er bara frábært þegar fólk er í góðum samböndum og skiljanlegt að það sé eftirsótt. Það er samt líka ótrúlega mikilvægt að geta notið þess að vera á lausu, vera sjálfri sér nóg og líða vel án þess að það sé háð annarri manneskju. Við ættum öll að vera stóra ástin í eigin lífi og ég mæli innilega með fyrir alla sem eru á lausu að halda upp á það, til dæmis með svona partíi,“ segir Kristín að lokum.

Hér má sjá dagskrá einhleyputeitisins 2021. Teitið er því miður …
Hér má sjá dagskrá einhleyputeitisins 2021. Teitið er því miður lokað almenningi en Kristín hvetur einhleypa til að halda sambærilegt partí.
mbl.is
Í loftinu núna
Endalaus tónlist

#taktubetrimyndir