Eva Ruza fórnaði sér fyrir sólina: „Örþrifaráð hjá „desperate lady““

 „Ég fórnaði mér bara því ég var orðin uppgefin á höfuðborgarsvæðinu að bíða eftir sólinni. Á sál og líkama,“ sagði Eva Ruza í samtali við Síðdegisþáttinn sem var í beinni útsendingu frá Húsavík á föstudag, en hún mætti í þáttinn beint af tjaldsvæði á Akureyri.

Fyrsta sinn í tíu eða ellefu ár

„Ég er eins langt frá því að vera „útihátíðabolur“ og hægt er. Ég er í minni fyrstu útilegu núna í held ég tíu eða ellefu ár,“ sagði Eva og bætti við aðspurð: „Ég er í tjaldi á tjaldstæði og sef á dýnu sem er uppblásin á grasinu og vakna sveitt á morgnana. Ég er í þeirri útilegu.“ Sagðist hún venjulega hata það að vera í útilegu.

„En þetta voru örþrifaráð hjá „desperate lady“ sem þráði sól,“ sagði Eva sem kveðst sjálf hafa stungið upp á útilegunni. 

Leitaði að gistingu í tvær vikur

„Ég sagði við manninn minn á sunnudaginn: Siggi, við erum á leiðinni í útilegu. Hann var í símanum og leit upp á mig og sagði: HA? Hvað sagðir þú?“ útskýrði Eva sem segist hafa fengið allt fyrir útileguna lánað þar sem hún átti ekkert fyrir slíka ferð sjálf.

„Það eina sem ég á í þessari útilegu er ein uppblásin dýna sem ég keypti daginn sem við fórum,“ sagði hún glettnislega en hún sagðist kannski ætla aftur í útilegu á næsta ári en þá aðeins í þriggja hæða tjaldhýsi.

„Ég var búin að leita í tvær vikur að hóteli. Ég var búin að leita að Airbnb. Svo endaði ég með að finna gistingu sem kostaði bara jafn mikið og að fara með fjölskylduna til Tenerife. Þá var farinn að læðast að mér tjaldhugmyndin,“ sagði Eva.

Hlustaðu á allt spjallið við Evu í spilaranum hér að neðan.

mbl.is
Í loftinu núna
Endalaus tónlist

#taktubetrimyndir