Æfði ekkert að ráði í Covid en hélt sér samt við

Ingi Torfi segist ekki hafa æft neitt að ráði í …
Ingi Torfi segist ekki hafa æft neitt að ráði í eitt og hálft ár eða frá því að Covid-tímabilið hófst en hann náði samt að halda sér við með macros-mataræðinu. Ljósmynd af instagram @ingitorfi

Macros- og næringarþjálfarinn Ingi Torfi kveðst ekki hafa æft nánast neitt frá því Covid gerði vart við sig, aðeins haldið mataræði sínu við. Þetta segir hann að hafi orðið til þess að hann breyttist nánast ekkert líkamlega, hvorki þyngdist né missti mikla vöðva. Ingi Torfi ræddi árangur sinn í Ísland vaknar í morgun en hann deildi jafnframt færslu um hann á Instagram.

Nennti ekki á æfingar

„Engar [æfingar] að ráði. Ég hef auðvitað farið á æfingu af því að ég er alltaf að fara að byrja. En svo hefur maður ekkert mætt nema kannski einu sinni á þriggja vikna fresti og verið að drepast í skrokknum af strengjum og drepast í öxlinni. [Maður hefur] ekki nennt að að skrá sig í tíma og notað það sem afsökun að það voru takmarkanir. Ég hef bara ekkert mætt,“ sagði Ingi Torfi sem benti á að fyrir Covid hafi hann æft sjö sinnum í viku.

Ekki mikið breyst á einu og hálfu ári

„En það sem var pínu magnað er að ég hef ekki breyst svo mikið. Ég hef ekki þyngst og ekki misst mikla vöðva eða breyst mikið. Það er náttúrlega síðasti punkturinn í færslunni [á Instagram] er: Mataræði, „check“,“ sagði Ingi.

„Mataræðið er búið að vera allavega 80% allan tímann. Miðað við það að ég sé ekki að hreyfa mig. Það er pínu magnað að svona gamall karl eins og ég geti haldið mér nokkuð vel án þess að vera að æfa en með því að fylgjast með matnum,“ sagði Ingi sem er 43 ára gamall.

Vanur að segja að æfingar séu lykillinn

„Maður er svo vanur að segja sér að æfingarnar séu lykillinn að öllu. Að þú verðir að mæta og helst að svitna ógeðslega mikið og mæta helst alla daga vikunnar. Það er einhvern veginn mælikvarði á það hvort þú stóðst þig vel. En svo kannski borðaðir þú rosalega óskynsamlega alla vikuna og þá stóðstu þig í rauninni ekki vel,“ útskýrði hann og bætti við:

„En mataræði. Það er fínt að byrja á því samhliða æfingunum því það hjálpar til við að ná árangri.“

Ingi Torfi sagði fólk sem fari á macros-mataræðið jafnan upplifa betri svefn, minni bólgur og betri meltingu en hann trúir því að mataræði skipti mun meira máli en hreyfing þó að hreyfing væri mjög mikilvæg samhliða góðu mataræði.

 Hlustaðu á spjallið við Inga Torfa í spilaranum hér að neðan.
mbl.is
Í loftinu núna
Endalaus tónlist

#taktubetrimyndir