„Lífið er of stutt fyrir óþægileg föt“

Camilla Rut styður ekki orðatiltækið: „Beauty is Pain“.
Camilla Rut styður ekki orðatiltækið: „Beauty is Pain“. Skjáskot/Instagram-síða Camillu

Camilla Rut mætti að vana í Ísland vaknar í morgun og ræddi þar um undirföt og mikilvægi þeirra fyrir þægindi og sjálfsmynd kvenna.

„[Það er] vanmetið dæmi að vera í góðum undirfötum,“ sagði Camilla sem bendir á að 80% kvenna noti vitlausa brjóstahaldarastærð. 

„Mig langar að biðla til kvenna að ekki bara gera þetta [kaupa undirföt] í flýti og skottast inn og sækja eitthvað heldur gefa sér svolítinn tíma í þetta. Það er svolítið valdeflandi að vera í góðum og þægilegum undirfötum sem passa,“ sagði hún. 

Uppgötvaði að hún var í rangri stærð

Sjálf sagði hún frá því að hún hefði ákveðið að fara í mælingu fyrir nokkrum árum þar sem hún komst að því að hún hafði verið í einni til tveimur stærðum of litlum brjóstahaldara. Það að fá rétta stærð breytti lífi hennar.

„Júllurnar fengu nýtt líf og mættu til leiks. Heldur betur og þetta er allt annar leikur að leika,“ sagði Camilla kímin.

Sagði Camilla jafnframt afar valdeflandi fyrir konur að fara í falleg undirföt.

„Sérstaklega þegar þú ert á barneignaraldri og ert svolítið í þessum pakka. Þá þarftu svolítið að hafa fyrir því að finna þetta innra með þér,“ sagði Camilla. „Það er nóg að gera en þetta ýtir undir konuna innra með manni,“ sagði hún.

Lífið er of stutt

„Lífið er of stutt fyrir óþægileg föt. Það er bara þannig,“ sagði Camilla sem segist heldur betur ekki styðja hið þekkta enska orðatiltæki: „Beauty is Pain“.

„Já, ég styð það ekki!“ sagði hún hlæjandi.

Hlustaðu á allt spjallið við Camillu Rut í spilaranum hér að neðan.

 

mbl.is
Í loftinu núna
Endalaus tónlist

#taktubetrimyndir