Lífið áhyggjuminna á Húsavík

Gunna Dís útvarpskona og bæjarstjórafrú nýtur lífsins á Húsavík.
Gunna Dís útvarpskona og bæjarstjórafrú nýtur lífsins á Húsavík. Árni Sæberg

Fjölmiðlakonan og bæjarstjórafrúin Gunna Dís er ótrúlega heilluð af Húsavík þar sem hún er nú búsett ásamt fjölskyldu sinni. Hún mætti í Helgarútgáfuna á K100 þar sem hún ræddi lífið í bænum.

Sagði Gunna Dís það afar skiljanlegt að finna til innilokunarkenndar við að búa í bænum að vetri til en sjálf væri hún ekki á þeim pólnum.

„Mér finnst ég einmitt ótrúlega miðsvæðis hérna. Af því að það er svo stutt í náttúru. Það er stutt að fara til Akureyrar, Egilsstaða og hvert sem er. Þú hoppar svo bara upp í flugvél og þú ert komin suður. Þannig að hér er gott að vera með börn og fjölskyldu. Lífið verður áhyggjuminna. Það er ekki þetta skutl. Þetta vesen,“ sagði Gunna Dís. 

Gunna Dís mætti í Helgarútgáfuna á K100 á Húsavík á …
Gunna Dís mætti í Helgarútgáfuna á K100 á Húsavík á laugardag.

Heimilið er þar sem hjartað manns er

„Ég er með átta ára strák. Hann fer bara út klukkan korter yfir níu á morgnana og svo kannski um fimmleytið fer maður að hugsa: heyrðu, hvar er Magnús Hlíðar? Það er bara heilt þorp að passa börnin,“ útskýrði hún.

„Heimilið er þar sem hjartað manns er og þar sem maður lætur sér líða vel,“ sagði Gunna Dís.

Sagði Gunna Dís að stemningin síðasta sumar hefði verið ótrúleg í bænum í kjölfar útgáfu eurovisionmyndar Wills Ferrels, þrátt fyrir Covid, enda hefðu mun fleiri Íslendingar heimsótt bæinn.

„Það var bara brjálað að gera. Maður fann aukinn áhuga landans á að koma hingað,“ sagði Gunna Dís, sem segir þetta sumarið ekki hafa verið síðra enda einnig mikið um erlenda ferðamenn. 

„Núna er þetta rosalega blandað og ofboðslega skemmtilegt,“ sagði hún.

Hlustaðu á allt viðtalið við Gunnu Dís í spilaranum hér að neðan.

 mbl.is

#taktubetrimyndir