Fólk fari ekki í sjálfsvorkunn, frekju og viðnám við fréttunum

Guðni Gunnarsson hjá Rope Yoga setrinu hvetur fólk til að …
Guðni Gunnarsson hjá Rope Yoga setrinu hvetur fólk til að líta á núverandi aðstæður sem áskorun en ekki vandamál og að styrkja sig með jákvæðu hugarfari. mbl.is/Kristinn Magnússon

Guðni Gunnarsson hjá Rope Yoga-setrinu ræddi við morgunþáttinn Ísland vaknar í morgun um það hvernig takast megi á við þau vonbrigði sem fólk finni fyrir nú þegar ljóst er að nýjar takmarkanir vegna útbreiðslu nýs afbrigðis kórónuveirunnar verða settar á. 

Sagði hann mikilvægt að líta á aðstæðurnar sem áskorun en ekki vandamál og benti jafnframt á mikilvægi jákvæðninnar til að styrkja ónæmiskerfið.

„Það er svo dýrt að fara í vonbrigði. Þetta er vissulega áskorun og lífið getur oft verið áskorun. En þá er spurningin förum við í athygli eða viðnám. Það eru svo mikil útgjöld í svekkelsinu og vonbrigðunum,“ sagði Guðni.

Hvergi betur í stakk búin

„Þetta er ekkert vandamál þetta er áskorun. Við erum hvergi betur í stakk búin en hérna á Íslandi til að takast á við þetta.

Hugsaði þér að megnið af orkunni sem við höfum til umráða skuli fara í sjálfsvorkunn, frekju og viðnám. Að við skulum ekki skilja að dagurinn í dag er blessun en ekki vandamál. Þó að það sé kannski smá rigning eða svolítið dökkt yfir þá þarf það ekki að þýða myrkur í hjarta,“ útskýrði Guðni.

Ekki eðlilegt að liggja

 „Það er eðlilegt að hrasa en það er ekki eðlilegt að liggja. Þegar maður hrasar þá stendur maður á fætur eins fljótt og kostur er,“ sagði Guðni og bætti við að eins og hann hafi áður rætt við Ísland vaknar, væri sársaukinn óumflýjanlegur en þjáningin val. 

 „Þegar við förum í viðnám gagnvart því sem er að gerast og því hvar við erum stödd þá erum við að vorkenna okkur. Við erum ekki að taka ábyrgð,“ sagði Guðni.

„Ég er stöðugt að minna fólk á að vissulega eru bólusetningar af hinu góða en ónæmiskerfið okkar er mikilvægast og við þurfum að styrkja okkur og það gerist bara í jákvæðni og blessun. Við verðum ekki sterk í skugganum, við verðum sterk í ljósinu,“ sagði hann.

Fólk hræðist breytingar

Guðni sagði hluta af óttanum sem fólk finni fyrir vera við breytingar. 

„Þá verður ekkert eins aftur. Og við verðum að vera öðruvísi og velja viðbragð og opna hjartað og koma inn í kærleikann. Skilja að óttinn er þetta viðnám sem ég er að tala um. 

Það breytir engu. Allt sem þú veitir athygli vex og dafnar. Ef þú elur púka þá fitnar hann,“ sagði Guðni.

Hlustaðu á spjallið við Guðna í spilaranum hér að neðan.

 

mbl.is
Í loftinu núna
Endalaus tónlist

#taktubetrimyndir