Birgitta segir frá leynistöðum á Húsavík

Birgitta Haukdal ásamt dóttur sinni Sögu Júlíu.
Birgitta Haukdal ásamt dóttur sinni Sögu Júlíu. Ljósmynd/Aðsend

Tónlistarkonan og rithöfundurinn Birgitta Haukdal er fædd og uppalin á Húsavík en hún ræddi við Helgarútgáfuna sem var í beinni frá Eurovision-bænum svokallaða á laugardag. Sagði hún þar meðal annars frá stað sem hún fer alltaf með fjölskylduna á þegar hún heimsækir bæinn.

„Ég átti 18 yndisleg ár á Húsavík og er mjög dugleg að koma og heimsækja bæinn. Mér þykir ótrúlega vænt um bæinn minn,“ sagði Birgitta sem kveðst koma með fjölskyldu sinni nokkrum sinnum á ári til Húsavíkur. 

„Ég tala nú ekki um á sumrin. Þá er alveg dásamlegt að vera þarna,“ sagði hún en hún segir þó einnig frábært að koma til Húsavíkur á veturna og skella sér á skíði.

Sagðist hún aðspurð alltaf fara með börnin á einn stað í bænum sem hún hélt að margir vissu ekki endilega af.

Ævintýraheimur fyrir krakka

„Við förum alltaf í „pikknikk“ í Húsavíkurfjalli. Það er kannski eitthvað sem fólk veit ekki um. Það er æðisleg skógrækt meðfram Húsavíkurfjallinu fyrir ofan sjúkrahúsið þar sem eru fallegir göngustígar,“ sagði Birgitta.

„Það er yndislegt að taka eð sér nesti, pikknikk-dúk, sykurpúða og pylsur. Það eru eldstæði inni í skóginum. Mjög krúttlegt og notalegt og algjör ævintýraheimur fyrir krakka og auðveld gönguleið. Þetta er það sem við gerum alltaf.“

Birgitta sagði einnig að frábært væri að fara með börnin að Gullfiskatjörninni á Húsavík en þangað fer hún oft með fjölskyldunni með teppi og heldur pikknikk á meðan krakkarnir leika sér í tjörninni.

„Það er mikið ævintýri fyrir börnin,“ sagði Birgitta.

 Hlustaðu á viðtalið við Birgittu Haukdal í spilaranum hér að neðan.

 

mbl.is
Í loftinu núna
Endalaus tónlist

#taktubetrimyndir