Uppgötvuðu að þær áttu sama kærasta og sameinuðust

Bekah King, Abi Roberts og Morgan Tabor fundu hvor aðra …
Bekah King, Abi Roberts og Morgan Tabor fundu hvor aðra í gegnum óvenjulegt áfall en þær áttu allar sama kærastann sem þær áttu óafvitandi á sama tíma. Skjáskot af instagram

Bekah King, 18 ára, Abi Roberts, 19 ára, og Morgan Tabor, 21 árs, eru góðar vinkonur en vinskapur þeirra varð til með nokkuð óvenjulegum hætti; þær áttu allar sama kærasta sem hélt fram hjá þeim öllum. Þær ferðast nú saman um Bandaríkin á rútu sem þær gerðu upp sjálfar og njóta lífsins.

Í staðinn fyrir að taka reiði sína út hver á annarri þegar þær komust að svikum kærastans sögðu þær kærastanum allar upp og tóku höndum saman. 

View this post on Instagram

A post shared by FINE CREW (@the.bam.bus)

Ferðast um Bandaríkin á uppgerðri rútu

Þær ferðast nú um Bandaríkin á rútunni og segja frá ferðalaginu á instagramsíðu sinni en Washington Post tók viðtal við stúlkurnar á dögunum.

„Þetta er draumalífið. Við skemmtum okkur svo vel,“ segir Tabor í samtali við Washington Post.

Vinskapur þremenninganna byrjaði ekki fyrr en í desember síðastliðnum í kringum jólin en Tabor kveðst þá hafa verið farið að gruna að ekki væri allt með felldu hjá kærastanum. 

Þau höfðu verið saman með pásum í nokkur ár en á þessum tíma voru þau kærustupar.

Þá tók Tabor eftir því að kærastinn var að skrifast á við nokkrar aðrar konur og sá að aðrar konur settu afar ástleitnar athugasemdir á myndirnar hans á samfélagsmiðlum. Tabor leist ekki á blikuna og ákvað að skoða eina konuna á instagram og fékk áfall við að skoða instagramsíðu hennar. 

„Nánast allar myndirnar á síðu stelpunnar sýndu hana með þessum gaur sem ég hélt að væri kærastinn minn,“ sagði Morgan Tabor sem hafði í kjölfarið samband við stelpuna sem varð alveg jafn hissa að heyra um tilvist hennar. Þær tvær ákváðu að grafa dýpra og fundu þá Abi Roberts. 

Klikkaðasta tilfinning sem hún hafði fundið

„Þegar Morgan hafði samband við mig upplifði ég klikkuðustu tilfinningu sem ég hef fundið,“ sagði Abi Roberts, sem hafði verið í sambandi með manninum sem hún hélt að væri kærastinn sinn í rúmt ár. „Gaurinn svaf bókstaflega heima hjá mér nóttina fyrir, kyssti mig bless og sagði að hann væri að keyra til Boise [frá Utah] til að hitta fjölskylduna sína,“ sagði hún.

Þess í stað mætti hann fyrir utan hús Tabor með blóm á meðan hún var að spjalla við Roberts í gegnum facetime-forritið.

Hún kallaði þá til hans að hún hefði eignast nýja vinkonu og sýndi honum símann þar sem Roberts var. 

View this post on Instagram

A post shared by FINE CREW (@the.bam.bus)

Að minnsta kosti sex aðrar stelpur

„Það var eins og í kvikmynd að sjá andlitið á honum þegar hann sá við hvern ég var að tala á facetime,“ rifjar Tabor upp.

Kærastinn reyndi að telja þeim trú um að það væri allt í lagi að vera í sambandi við fleiri en eina konu en þær létu það sem vind um eyru þjóta. 

Eftir að hann fór rannsökuðum við þetta nánar og fundum að minnsta kosti sex aðrar konur sem hann var að hitta,“ sagði Roberts. Ein af þessum konum var Bekah King sem byrjaði að hitta manninn 2020.

Unnu saman úr áfallinu

Kærastinn fyrrverandi hafði að sögn þremenninganna talað um að hann sæi fyrir sér framtíð með þeim öllum. Þær ákváðu í framhaldinu að segja honum allar upp og studdu svo hver aðra á komandi mánuðum þangað til þær ákváðu að hittast eina helgi hjá Roberts.

Þar unnu þær saman úr áfallinu og töluðu um minningar sínar en við þetta uppgötvuðu þær að þær áttu margt sameiginlegt. 

„Við urðum strax frábærar vinkonur,“ segir Roberts. 

„Gaurinn hafði sagt okkur öllum að það hefði verið draumur hans að eignast VW-rútu og ferðast um landið í henni. Við sátum og hlógum og töluðum um rútulífið þessa helgi og fljótlega hugsuðum við bara: Hei, við gætum gert þetta,“ segir hún en allar þrjár áttu stúlkurnar frí þetta sumarið og að auki þekkti Roberts mann sem gat selt þeim gamla rútu.

View this post on Instagram

A post shared by FINE CREW (@the.bam.bus)

Vinkonur ævilangt

Þær tóku sig síðan til og gerðu rútuna upp með því að horfa á youtubemyndbönd. Þegar rútan var tilbúin fóru þær af stað í ferðina sem þær segja að sé alls ekki nein „hefndarferð“.

„Það sem þessi gaur gerði skilgreinir ekki okkar líf. Okkur finnst við bara mjög blessaðar að hafa fundið hver aðra. Við verðum vinkonur ævilangt.“

Frétt af Washington Post.

mbl.is

#taktubetrimyndir